Fjáraukalög 2009

Þriðjudaginn 15. desember 2009, kl. 14:57:33 (0)


138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason spurði mig hvort ég væri ekki sammála því að árangur hefði náðst. Ég fagna því ef við náum árangri við þá glímu sem við stígum nú, tvímælalaust. Það sem við höfum verið að gagnrýna í stjórnarandstöðunni er ekki árangur sem náð er, heldur erum við að draga fram eins og með vísan til skýrslu Ríkisendurskoðunar, þó svo að heildarmarkmiðið varðandi jöfnuðinn sem bandorminum var ætlað að ná fram varðandi tekjur og gjöld hafi nálgast nokkuð vel, er samsetningin á þeim aðgerðum sem þar er um að ræða ekki slík sem að var stefnt, þ.e. það sem bjargar tekjuhlutanum er að vaxtatekjur og tekjur af fjármagni eru miklu, miklu meiri en menn ætluðu, en tekjurnar af sköttunum sem ætlað var að koma inn eru töluvert langt frá því sem ætlað var. Ég nefndi í ræðu minni áðan sérstaklega virðisaukaskattinn. Það er þau frávik og sú óvissa sem við höfum verið að halda á lofti vegna fjárlagagerðar næsta árs. En við fögnum að sjálfsögðu hverju skrefi sem tekið er í þá átt að reyna að vinna á þessum vanda ef við sjáum árangur þar. En um aðgerðirnar (Forseti hringir.) og aðferðirnar getum við alltaf deilt. Það er eðli stjórnmálanna að slíkt sé (Forseti hringir.) gert.