Fjáraukalög 2009

Þriðjudaginn 15. desember 2009, kl. 15:02:00 (0)


138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst af öllu segja það í tengslum við þessar spurningar, einfaldlega vegna þess að mál sveitarfélaganna eru mér hugleikin, að við megum heldur ekki gleyma því að hluti af batanum er að lagt var tryggingagjald á alla launagreiðendur. Sveitarfélögin koma inn í það og þar er ákveðinn bati.

Varðandi hallarekstur sveitarfélaga hefur fjárlaganefnd alla tíð gagnrýnt hallarekstur ríkisstofnana. Það er framkvæmdarvaldið sem sér um þá hluti og einhvern veginn virðist þetta vera vanbúið til að vinna eins og ráð er fyrir gert í fjárreiðulögunum, því miður. Hv. þingmaður spyr hvort það sé ekki til bóta sem ákveðið var í fjáraukalögunum, þ.e. að stöðva hallareksturinn. Ég deili ekki alveg þeirri skoðun með hv. þingmanni, einfaldlega vegna þess að ákvörðunin er ekki heil, þetta er bara partur af ákvörðun, þ.e. að lýsa því yfir í fjáraukalögunum að það eigi ekki að verða hallarekstur, skilja hallareksturinn og hallann eftir ókláraðan og afganginn raunar líka — það má ekki gleyma því sem vel er gert, það gerist bara oft — og senda síðan stofnanirnar sem hugsanlega eru í vandræðum inn í næsta ár með skertar fjárheimildir. Vandinn er þá enn fyrir hendi en sá ákveðni vilji sem hefur alla tíð verið fyrir hendi að vilja taka á þessu er jafnríkur nú og hann var áður. Aðferðirnar sem við erum að beita eru í mínum huga þess eðlis að þær virka ekki. Það er miður vegna þess að það vantar (Forseti hringir.) inn í þær.