Fjáraukalög 2009

Þriðjudaginn 15. desember 2009, kl. 15:04:12 (0)


138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[15:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu framhaldsnefndarálit um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2009. Mig langar í upphafi máls míns að vekja athygli á einu sem mér finnst endurspegla það verklag sem haft hefur verið, ekki bara varðandi fjáraukalögin heldur líka fjárlögin. Þetta á reyndar við um lokafjárlögin. Það kemur fram í 45. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, að það beri að leggja fram lokafjárlög samhliða ríkisreikningi. Lögin eru mjög skýr hvað þetta varðar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Þar skal leitað heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins. Heimilt er að greiða slíka umframgreiðslu af fjárveitingu næsta árs. Einnig skal gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.“

Það bólar ekkert á lokafjárlögum núna við 3. umr. um frumvarpið. Í mínum huga er það skýrt brot á því lagaákvæði sem ég var að lesa upp. Ég held að það sé algjörlega óþolandi að ekki sé farið að lögum og legg til að bætt verði þar úr í snarhasti.

Það er líka óásættanlegt að fjárlaganefnd Alþingis geti ekki haft þessar upplýsingar við höndina. Þá bendir 1. minni hluti á að það sé einnig eðlilegt að ríkisreikningur verði gefinn út fyrr á árinu og leggur til að það verði skoðað mjög ítarlega.

Virðulegi forseti. Þegar það frumvarp sem við erum að ræða var lagt fram í fyrsta sinn hafði orðið kerfishrun á Íslandi. Bankahrunið var nýafstaðið og þá lá fyrir að taka þurfti fjárlög ársins 2009 upp og endurvinna þau. Framsóknarflokkurinn var þá í stjórnarandstöðu ásamt Vinstri grænum. Við sögðum: Gott og vel, við gefum ykkur svigrúm til að fara á þessum stutta tíma yfir nýtt fjárlagafrumvarp, leggja það fram, en mælumst um leið til þess að í kjölfarið verði vinnubrögðin bætt og að menn læri af því hruni sem hefur átt sér stað. Ég er sannfærður um að óvönduð vinnubrögð við fjárlagagerð, léleg eftirfylgni og nánast handónýtt eftirlitskerfi séu stór hluti af þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag. Við sögðum ítrekað í ræðustól fyrir um ári: Vinnubrögðunum verður að breyta. Og hver er staðan? Það er ekki verið að breyta vinnubrögðunum. Menn ræða eins og það standi til, menn ræða eins og að það sé erfitt í þessu ástandi, en menn hafa haft nægan tíma til að undirbúa þessi fjáraukalög, hvað þá gera eins og lög kveða á um, að leggja fram frumvarp til lokafjárlaga. Það er alveg sama, hvað viðkemur fjárlagagerð á Alþingi í dag verður að breyta vinnubrögðunum og það verður ekki fyrr en það hefur verið gert sem endurreisn Íslands og íslenska fjármálakerfisins getur hafist.

Hér voru gerð stór mistök um leið og ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við völdum þegar útgjaldaliður fjárlaga var aukinn um 20%. Það var olía á eldinn og í því þensluástandi sem þá ríkti var þetta það eina sem ekki mátti gera.

Það eru fleiri atriði sem ég vil benda á sem eru til mikilla vansa. Í frumvarpi til fjáraukalaga eru lántökur vegna uppgjörs á Icesave-reikningum og tengdum innlánsreikningum í útibúum gömlu bankanna erlendis ekki tilgreindar. Hér erum við að tala um fjárhæðir upp á tugi eða hundruð milljarða króna. Fyrr í dag fór fram atkvæðagreiðsla um fjárlög þar sem ríkisstjórnin hefur lagt til að farið verði í skattahagræðingar, eins og hún kallar það, til að fá tekjur upp á um 57 milljarða. Vextir af Icesave á einu ári eru um 45 milljarðar kr. sem sýnir hvers lags ófreskja Icesave-samningarnir eru í samanburði við fjárlög hvers árs. Fjárlögin blikna í samanburðinum. Ég hefði talið rétt í því fjáraukalagafrumvarpi sem við erum að ræða að menn hefðu komið með áætlanir um það hvað Icesave-skuldbindingar mundu þýða fyrir þetta frumvarp. Jafnvel þótt ekki sé búið að ganga endanlega frá frumvarpinu um Icesave liggur fyrir frumvarp sem búið er að vísa til 3. umr. og menn ættu að geta séð í hendi sér hvað um væri að ræða. Við erum að tala um hrikalegar fjárhæðir sem munu lenda á komandi kynslóðum.

Það er eitt atriði í viðbót sem mig langar til að vekja sérstaka athygli á. Ég gagnrýni þá aðferðafræði sem virðist því miður ætla að festast í sessi við fjármögnun á stórframkvæmdum, að hún sé tekin utan fjárlaga. Ég held að það sé engum til bóta að fela fjárveitingar til slíkra framkvæmda og í því sambandi skal minnt á að stjórnarandstaðan hefur ítrekað haft uppi athugasemdir um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss og áform samkvæmt heimild í 6. gr. fjárlaga um byggingu Landspítala og samgönguframkvæmdir. Þarna er um að ræða algerlega opnar fjárheimildir upp á marga milljarða, ef ekki tugi, og algerlega óásættanlegt að framkvæmdarvaldið skuli hafa slíkar heimildir til að ráðskast með. Það verður ekki hægt að gera alvörufjárlagafrumvarp fyrr en búið er að kippa þessu í liðinn. Þetta þýðir að efnahagsreikningur ríkissjóðs mun langt í frá gefa rétta mynd af áföllnum skuldbindingum. Ég tel afar brýnt að ráðist verði í það sem allra fyrst að eyða þeirri óvissu sem núverandi tilhögun þessara verkefna hefur í för með sér. Ég mun ekki linna látum fyrr en það hefur verið gert og vil í því sambandi minna á að ég kvaddi mér hljóðs fyrir um ári og benti á að eftirlitshlutverk Alþingis væri ekkert og því til vansa, alþingismenn væru illa upplýstir. Undir þetta tók núverandi hæstv. menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, og einnig þingkonur úr Sjálfstæðisflokknum, þær hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ólöf Nordal. Það er vilji hjá a.m.k. þremur flokkum af fjórum — þá tala ég um þá stærri — til að breyta og ég skora á ríkisstjórnina að gera allt sem í hennar valdi stendur til að ráðast í þær framkvæmdir.

Í þeim breytingartillögum sem hér er verið að ræða er halli ríkissjóðs áætlaður rúmlega 151 millj. kr. en hafa verður í huga að þar eru ekki taldar með verðbætur af skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands vegna krafna sem ríkissjóður keypti vegna lána Seðlabankans til viðskiptanna. Það hefur komið fram í umræðum á Alþingi að þessi fjárhæð gæti numið um 20 milljörðum kr. og enn á ný vil ég benda á að svo virðist sem alþingismenn og jafnvel fjölmiðlar séu haldnir einhvers konar tölublindu, að menn tali um milljónir og milljarða í sömu andrá. Venjulegur launamaður vann sér inn um 3,5 millj. kr. á ári sé miðað við meðallaun, að frádregnum skatti um 2 millj. kr., þannig að auðvelt er að setja þessar háu fjárhæðir í samhengi þegar menn reikna þetta út frá sjálfum sér og eigin tekjum.

Ég tel mjög brýnt að meiri hlutinn geri nánari grein fyrir þeirri fjárbeiðni sem lögð er til í tekjuhluta frumvarpsins og að fjárlaganefnd Alþingis fjalli nánar um forsendur slíkra breytingartillagna og um leið fái nefndin mun ítarlegri upplýsingar um hvernig ætlunin er að ná þeim tekjum sem gert er ráð fyrir. Um leið verðum við að fá á hreint hvaða þættir það eru í efnahagslífinu sem gefa tilefni til slíkrar tillögugerðar.

Við í stjórnarandstöðunni höfum gert miklar athugasemdir við áætlanir um tekjuauka af sköttum einstaklinga og lögaðila, svo og áætlaða hækkun tekna af virðisaukaskatti þar sem 1. minni hluti telur afar vafasamt að þær nái fram að ganga. Þessa sér m.a. stað í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga í janúar til ágúst 2009. Þar kemur fram að skattbreytingar sem gerðar voru í júní hafi, með leyfi forseta: „„ekki skilað sér nema að litlu leyti í auknum tekjum. Hins vegar má segja að þær hafi forðað því að tekjur drægjust meira saman en áætlað var í fjárlögum“. Í bréfi Ríkisendurskoðunar til fjárlaganefndar frá 27. nóvember sl. telur stofnunin „óhætt að fullyrða að aðhaldsaðgerðir á miðju ári hafi ekki skilað sér nema að litlu leyti“.“

Þetta er hluti af því sem minni hlutinn hefur gagnrýnt og um leið bendum við á að þær bókhaldsæfingar sem fjármálaráðuneytið viðhafði á síðustu stigum umræðu í fjárlaganefnd er að mínu viti öllu stjórnkerfinu til vansa. Þar var gert ráð fyrir því að um 6,5 milljarðar kæmu í arð frá Arion banka en því miður, væntanlega fyrir ríkisstjórnina, liggja ekki fyrir upplýsingar sem staðfesta að rekstrarafkoma ársins hafi leyft arðgreiðsluna. Ég tel að þessar bókhaldsæfingar séu (Forseti hringir.) því miður því marki brenndar, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að verið sé að brjóta (Forseti hringir.) lög en vil að lokum, frú forseti, um leið og ég lýk máli mínu, þakka riturum nefndarinnar sérstaklega fyrir góða vinnu sem og samstarfið í nefndinni.