Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 15. desember 2009, kl. 18:21:12 (0)


138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

innflutningur dýra.

166. mál
[18:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið fjöllum við um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, með síðari breytingum. Hér er fjallað um innflutning á djúpfrystu svínasæði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eins og kom fram í ágætri yfirferð varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, og í góðri yfirferð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar þá er þetta vel ígrundað mál og vel hefur verið staðið að verki. Það er gaman að geta komið hér upp trekk í trekk, frú forseti, og sagt að samstaða sé um málið, enginn pólitískur ágreiningur. Allir nefndarmenn í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd skrifa undir nefndarálitið án fyrirvara og þær umsagnir sem bárust frá Svínaræktarfélagi Íslands, Bændasamtökum Íslands, Matvælastofnun og Neytendasamtökum voru allar samhljóða um að æskilegt og nauðsynlegt væri að samþykkja þetta frumvarp.

Hér kemur líka fram og kom fram í ræðum hv. áðurnefndra þingmanna að nauðsynlegt er að um þetta ríki nokkur sátt og að það séu ekki eingöngu hagsmunaaðilar, þ.e. svínabændur, sem standi að þessu heldur sé þetta samþykkt af þar til bærum yfirvöldum og menn telji að öll áhætta sé ásættanleg, og það þarf líka að vera sátt um þetta á meðal neytenda og þjóðarinnar. Menn þurfa að vera sammála um hvernig standa á að þessu, því að matvælaframleiðsla okkar Íslendinga er á afar háu plani og mikil sátt ríkir um hana meðal þjóðarinnar. Menn vilja gjarnan geta keypt íslenskar afurðir, bæði eru gæði þeirra mjög mikil og matvælaöryggið afar hátt þannig að mjög mikilvægt er að við getum tryggt fæðuöryggi til lengri tíma, m.a. með því að tryggja rekstrargrundvöll svínaræktar. Ein af forsendunum fyrir því er að bændur geti stöðugt sótt sér erfðaefni þar sem framþróunin er alveg gríðarleg.

Ég minnist þess að þegar ég hóf störf sem dýralæknir fyrir tuttugu árum var ekki óalgengt að koma inn á lítil svínabú þar sem grísir gátu orðið sjö, jafnvel átta mánaða gamlir áður en þeir náðu 60 kílóa fallþunga og þætti það afleitt í dag. Með skipulögðum innflutningi sem var heimilaður og fólst í því, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, að flytja lifandi dýr í einangrunarstöð í Hrísey og flytja næstu kynslóð þaðan inn á búin, náðust verulegar erfðaframfarir og í lok þess tíma held ég að megi segja að grísir hafi ekki náð mikið meira en fjögurra mánaða aldri og fallþunginn þá kannski verið 90 kíló. Menn sjá hversu gríðarlegur ávinningur hefur náðst á stuttum tíma. Erlendis er sem sagt stöðugur ávinningur og í samkeppni þurfa menn alltaf að geta boðið upp á hagkvæm matvæli á íslenskum markaði, án þess þó að raska eða taka aukna áhættu með sjúkdóma eða matvælaöryggi, þ.e. ef menn passa upp á það inni á búunum að aðbúnaður dýranna sé góður og þau heilbrigð, þá sé tryggt að maturinn sem úr því kemur verði heilnæmur.

Afar mikilvægt er að að þessu sé staðið með þessum hætti enda kemur í ljós í niðurlagi nefndarálitsins að nefndin telur að með frumvarpinu sé verið að efla, styrkja og auka svínarækt í landinu og að þessar ráðstafanir auki möguleika á því að búgreinin verði arðbær og samkeppnisfær við aðrar greinar og þá annan innflutning á svínakjöti. Jafnframt ítrekar nefndin mikilvægi þess að matvælaöryggi og sjúkdómavarnir séu ævinlega tryggðar.

Í því sambandi er rétt að minnast aðeins á það sem kom reyndar fram í framsögu varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, en ekki síður í yfirferð hv. þingmanns og fyrrverandi landbúnaðarráðherra Einars K. Guðfinnssonar, að unnið hefur verið að þessu í nokkurn tíma. Ástæðan fyrir því er sú að kerfið sem var unnið með áður reyndist svínabændum mjög dýrt og erfitt auk þess að auðvitað fólst ákveðin áhætta í því að flytja lifandi dýr þó að þau væru flutt úr einangrunarstöð af annarri eða þriðju kynslóð. Því var þetta skoðað sérstaklega og farið til annarra landa með sérstaka sérfræðinganefnd, reyndar að undangengnu áliti svokallaðs dýralæknaráðs, sem hefur verið yfirdýralækni til ráðgjafar. Það má segja að allir þessir aðilar hafi verið sammála um þær leiðir sem fara ætti en auðvitað hafa komið upp ýmsir möguleikar og leiðir. Má til að mynda nefna svokölluð SPF-býli í Danmörku eða Specific Pathogen Free býli sem mætti segja að séu laus við sérstök vandamál, sérstaka sjúkdóma. Engu að síður varð niðurstaðan sú og efnisleg rök eru fyrir því að ekki kæmi til greina að ganga lengra en að segja í frumvarpinu að aðeins ætti að flytja erfðaefni inn frá einu býli eða einni tegund býlis, þ.e. Norsvin í Hamri í Noregi, sem gæti fallið undir sérfræðingamatið á því hvað væri ásættanleg áhætta.

Tvær tillögur komu til greina í sérfræðinganefndinni og þær voru báðar reifaðar hér í 1. umr. og aðeins talað um þær. Þær voru auðvitað ræddar í nefndinni og af þeim sérfræðingum sem þangað komu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Bændasamtökunum og ekki síst Matvælastofnun og Svínaræktarfélaginu. Önnur þeirra, sú sem ekki var valin, var að flytja inn ferskt svínasæði sem yrði þá eingöngu til notkunar á sérstöku einangrunarbúi. Þá leið töldu svínabændur vera mjög dýra en ekki hefði þurft að breyta lögum, því það var innan heimilda í 13. gr. laga um innflutning dýra eins og nú er.

Tillaga tvö varð hins vegar fyrir valinu, að heimild yrði veitt fyrir innflutningi á frosnu dýrasæði frá Norsvin í Noregi sem geti farið beint inn á svínabú hér á landi að loknum ákveðnum einangrunartíma, þ.e. til að tryggja sjúkdómavarnirnar yrði sæðið geymt í einhvern tiltekinn tíma þar til sýnt þætti að lágmarks ásættanleg áhætta mundi fylgja notkuninni inni á býlinu og fylgst yrði með lífdýrunum í Noregi í ákveðinn tíma eftir að sæðistakan hefði átt sér stað til að tryggja það.

Ég spurði eftir því í nefndinni hvort þessar tvær tillögur hefðu verið metnar sérstaklega og á þær lagt sérstakt mat, annars vegar á kostnað og hins vegar á sjúkdómaáhættu og það síðan tekið saman. Um það var kannski ekki að ræða en hins vegar var það mat Svínaræktarfélagsins og svínabænda að fyrri tillagan yrði of dýr, þeir höfðu reynslu af því að hún yrði það, og eins þótti sérfræðingunum að innflutningur á frystu sæði mundi minnka áhættuna. Niðurstaðan er því í raun og veru sú að tillaga tvö varð fyrir valinu. Mér fannst mikilvægt að fá álit Neytendasamtakanna á þessu fyrir hönd almennings í landinu því að matvælaframleiðsla er ekkert einkamál framleiðenda, við búum á eylandi og ætlum að reyna að standa undir því að framleiða þann mat sem við viljum nota og tryggja þar með fæðuöryggi. Við viljum líka tryggja það góða matvælaöryggi sem við höfum í dag þannig að ekki má taka áhættu í því. Ég held að það hafi verið tryggt eins og hægt er — auðvitað er áhætta fólgin í öllum innflutningi og bara í sjálfu sér því að vera til — að áhættan sé lítil en ávinningur svínabænda gæti orðið verulegur og hann er auðvitað nauðsynlegur, því eins og ég minntist á fyrr í ræðu minni að ef menn geta ekki stundað erfðaframfarir detta menn ansi hratt aftan úr þeirri samkeppni og þeim erfðaframförum sem eru í öðrum löndum.

Kynbætur í svínarækt eru nokkuð flóknar, það þarf að rækta sérstakar hreinræktaðar móðurlínur og hreinræktaðar galtalínur og blanda þeim síðan saman til að búa til eldissvín. En það er hins vegar ekki úr eldissvínum sem eru tekin dýr til ásetnings heldur þarf að rækta hreinar línur í mismunandi kynjum og blanda þeim síðan saman með ákveðnum hætti til að tryggja að gæði kjötsins verði sem mest og best og fituprósentan ákveðin. Þetta eru því talsverð vísindi sem liggja að baki, sem krefjast í raun og veru ákveðins fjölda af erfðaefni, þ.e. fjölda dýra, og mjög erfitt er að ná því hér á landi þar sem svínarækt er auðvitað ekki eins öflug og víða erlendis. Þess vegna er nauðsynlegt að geta sótt erfðaefni til útlanda.

Ég held að í þessari umfjöllun nefndarinnar og í þeirri vinnu sem hefur verið unnin áður sé, eins og ég sagði áðan, nokkuð tryggt að búið sé að stíga eins varlega til jarðar og hægt er og líklegt að ávinningur geti orðið fyrir bæði svínabændur og þjóðina alla að geta eflt og styrkt svínarækt í landinu með það fyrir augum að tryggja að búgreinin sé arðbær og samkeppnisfær og að matvælaöryggi og fæðuöryggi þjóðarinnar verði þá enn betra en ef ekki kæmi til þessa frumvarps.

Ég vil að lokum endurtaka það sem ég sagði í upphafi, að öll nefndin skrifaði undir þetta án þess að setja nokkurn fyrirvara við og ég ítreka stuðning okkar framsóknarmanna við málið.