138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[18:55]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fékk þrjár spurningar. Ég ætla að fara inn í miðju. Spurt er hvort öll þessi fyrirtæki geri ekki upp í erlendri mynt. Svarið er jú, þau gera það öllsömul sem að þessu samkomulagi koma. Yfir gengisáhættuna var auðvitað vel farið og farið hefur verið vel yfir þetta með fjármálaráðuneyti og ríkisskattstjóra hvað útfærsluna varðar. Yfir það ágætlega farið í greinargerð.

Hvað varðar hina meginspurningu hv. þingmanns til mín varðandi það að við tökum þarna út hluta af skatttekjum framtíðarinnar, ákváðum við í samstarfi við þessi fyrirtæki að gera þetta svona. Þetta er auðvitað ekki allur tekjuskatturinn sem við munum greiða á þessu tímabili heldur bara hluti af honum. Við ákváðum að við mundum gera þetta svona til að mæta þeim gríðarlega óvenjulegu aðstæðum sem uppi eru í íslensku samfélagi. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður sé í stjórnmálaflokki sem leggur til sams konar leið nema í miklu stærra máli varðandi skatttekjur framtíðarinnar með því að skattleggja inngreiðslur fyrir lífeyrissjóðinn.

Virðulegi forseti. Við grípum hér til óvenjulegra aðgerða en þessir aðilar koma ekki aðeins að þeirri uppbyggingu fram undan er með þessum hætti heldur fá þeir líka á sig 12 aura raforkuskatt á hverja selda kílóvattstund. Það var hluti af öllu því samkomulagi þannig að ég fagna því mjög að þessir stóru aðilar komi með jafnmyndarlegum hætti og raun ber vitni í þessa uppbyggingu.