138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[18:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir svörin. Það kemur klárlega fram í svari hennar að verið er að taka lán af skatttekjum framtíðarinnar til að rétta okkur af núna, það liggur alveg klárt fyrir. En af því að hæstv. ráðherra kom inn á þá leið sem við sjálfstæðismenn höfum boðað, að taka inngreiðslur fyrir séreignarlífeyrissparnaðinn og skattleggja þær núna, hugsum við það þannig að þá þyrftum við ekki að fara í frekari skattahækkun á þessu ári. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að kynna sér þær tillögur sem við lögðum fram því að þær fela það í sér að halli á ríkissjóði minnkar um 26 milljarða, sem eru miklir peningar. Það er mikilvægt að menn kynni sér það vel.

Það sem ég hef áhyggjur af, virðulegi forseti, er þetta: Það sem er mikið verið að gera núna í ríkisrekstrinum — og það er mjög lítið aðhald í rekstrarþættinum — til að rétta af ríkissjóð eru svokallaðar einskiptisaðgerðir. Það er verið að fresta því að setja 8 millj. í vegagerð, það er búið að taka 6,6 milljarða út úr lífeyriskerfinu og það er verið að laga til með því að hætta við að selja sendiherrabústaði upp á 2 milljarða þannig að í raun og veru erum við með einhver 50% af sparnaðartillögum í ríkisrekstrinum á árinu 2010 með því að fara í svokallaðar einskiptisaðgerðir. Ég hef verulegar áhyggjur af því. Ég hef líka verulegar áhyggjur af því ef við förum að skattleggja svo mikið hina veiku skattstofna, ég tel að það sé ekki skynsamlegt. Það er mun skynsamlegra að mínu viti að fara hina svokölluðu lífeyrissjóðsleið, að taka inngreiðslur þar. Það er líka hægt að færa rök fyrir því vegna þess að ríkissjóður hefur í uppsveiflunni frestað þeim skatttekjum. Hann er þá kannski að safna í kornhlöðu, eins og stundum er sagt, þannig að það er mun skynsamlegra.

Ég ítreka það hér að ég hef miklar áhyggjur af gengisáhættunni í þessu vegna þess að ef gengi krónunnar styrkist mun þetta verða minna. Mér finnst það ekki sanngjarnt af núverandi hæstv. ríkisstjórn að taka svona á vandamálunum og þetta kemur til framkvæmda eftir að starfstíma hennar lýkur. Mér finnst þetta ekki gert með ábyrgum hætti og við þurfum að taka mun ábyrgar á rekstrarvandamálum ríkissjóðs.