138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[19:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að a.m.k. einn ráðherra í ríkisstjórninni áttar sig á mikilvægi þess að friður ríki milli ríkisstjórnarinnar og þeirra sem við hana þurfa að eiga. Það hefur ekki verið það hljóð í talsmönnum atvinnulífsins, hvorki launþega né vinnuveitenda, síðustu daga að þeir líti svo á að ríkisstjórnin hafi virt friðarskyldu sína við þá. Samráð og annað hefur verið með einhverjum ólíkindum að manni sýnist og vísa ég í orð forseta Alþýðusambands Íslands frá því í gær í því sambandi og reyndar fleiri.

Ég ætlaði að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra tveggja eða þriggja spurninga í tilefni af frumvarpinu. Áður en ég kem að því verð ég reyndar að geta þess að mér finnst þetta, burt séð frá öllu og öllu, einhver furðulegasta lagasetning sem ég hef séð, eitthvert furðulegasta fyrirkomulag sem ég hef séð, að gert sé samkomulag við skattgreiðendur um að þeir borgi nú einhvern skatt sem hugsanlega verður lagður á þá einhvern tíma í framtíðinni. Áferðin á þessu er öll hin furðulegasta. En látum það vera. Það á sér sínar skýringar. Skýringin er kannski ekki sú að þarna hafi tveir jafnsettir aðilar komið saman og gert með sér samning. Samið var undir þeim kringumstæðum að ríkisstjórnin hótaði þeim miklu verri aðgerðum en þarna er að finna. En látum það vera. Ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. iðnaðarráðherra telur að til greina komi að taka fleiri svona lán frá stórum skattgreiðendum í landinu, hvort semja eigi við fleiri fyrirtæki um að þau borgi núna skattana sem verða lagðir á þau eftir 5–10 ár. Eins velti ég fyrir mér hvort hæstv. iðnaðarráðherra telur að þetta verði til að örva frekari fjárfestingar í greininni.