138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[19:06]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held einmitt að dæmið með stóriðjufyrirtækin gefi þau skilaboð að það geti verið erfitt að treysta á að rekstrarumhverfi sem fyrirtæki hafa gengið út frá standist. Hér er verið að breyta forsendum sem legið hafa til grundvallar í rekstri þeirra og koma eftir á og breyta skattumhverfi sem þau hafa gengið út frá. Það er auðvitað rétt að þessi fyrirtæki hafa frekar kosið að fara þessa leið en þá skelfilegu leið sem var fyrir hendi í upphaflegum tillögum ríkisstjórnarinnar eins og birtist í fjárlagafrumvarpinu. Við munum að þar var kveðið á um miklu þyngri skattbyrði og það er vissulega fagnaðarefni að ríkisstjórnin hafi fallið frá því að höggva sérstaklega í eina grein í atvinnulífinu, svo að notuð séu orð hæstv. iðnaðarráðherra, og fari þessa furðuleið í staðinn.

Ég óttast að aðgerðir af þessu tagi séu síst til þess fallnar að auka trú erlendra fjárfesta á því að skynsamlegt sé að koma með peninga hingað inn. Ég óttast það því miður. Vonandi fælir þetta ekki alla frá, vonandi ekki. En ég held að það séu einmitt atriði af þessu tagi, í sambandi við fyrirsjáanleika í starfsumhverfi, sem hafi verulega mikil áhrif á þegar verið er að taka ákvarðanir um hvar fyrirtæki eru staðsett. Þessi æfing öll hefur þau áhrif að draga úr trúverðugleika Íslands sem stöðugs valkosts í því sambandi. Ég held að það sé þáttur sem þurfi að skoða í þessu sambandi.