138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[20:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir undrun hv. þingmanna sem hafa talað á undan mér í þessu máli. Maður getur ekki annað en verið undrandi á því samkomulagi sem gert hefur verið og undir einhverjum þrýstingi um að hækka jafnvel skatta enn meira og því er þetta afskaplega undarlegt samkomulag sem gert hefur verið, vægast sagt, frú forseti. Það virðist vera að fyrirtækin séu að lána ríkissjóði þá skatta sem þau koma til með að borga um átta ára bil, sýnist mér, og ætla að borga á þrem árum vaxtalaust en í mynt viðkomandi lands, það eru sem sagt 0% vextir ofan á myntina. Nú kemur ekki fram í hvaða mynt þetta er, sennilega er það dollari eða evra. Það vill svo til að vextir á þeim myntum eru nánast 0% núna, þannig að ekki er um mikla vaxtaeftirgjöf að ræða.

Undarlegt er dæmið samt og ég hugsa að fyrirtækin muni kannski geta sagt einhvers staðar að það sé ákveðin nauðung að samþykkja þetta frekar en að taka á sig miklu stærri og hærri skattálögur eins og tilkynnt hafði verið, sem var svo lækkað umtalsvert. Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta, menn hafa sagt þetta hér áður, en það að ríkissjóður sé farinn að eyða sköttum fyrir fram er náttúrlega ekkert annað en lántaka og ætti að forma sem slíkt og ætti í rauninni bara að fara undir lánsfjárlög ríkisins og ég geri ráð fyrir því að ríkið geti tekið svona lán annars staðar líka. Fordæmið er mjög skrýtið og mjög undarlegt.

Að lokum vil ég benda á að þetta er náttúrlega skattamál eða efnahagsmál og ætti að heyra undir efnahags- og skattanefnd og ég legg til að hv. iðnaðarnefnd, sem fær málið til umsagnar, vísi því til hv. efnahags- og skattanefndar til að fjalla um það í þeirri nefnd hvort hér sé farið inn á nýja braut og sé eitthvað sem menn ætli sér að fara að gera í stærri stíl í framtíðinni. Það getur vel verið að bifreiðaeigendur fái þá líka með sama hætti reikning upp á það að þeir skuli lána ríkissjóði skatta næstu ára í bensíneyðslu á bílinn sinn.