138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[20:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en var hvött til þess af hæstv. iðnaðarráðherra að setja mig á mælendaskrá þegar ég var að kalla fram í áðan. Mér er að sjálfsögðu ljúft og skylt að verða við þeirri beiðni frá hæstv. ráðherra.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað að þetta er hið undarlegasta mál. Það minnir mig í rauninni á það sem gerist á heimilum sem eru komin í vanda, að þar þurfi menn að byrja á að fá fyrir fram af laununum sínum. Það þykir ekki óskastaða þegar menn eru komnir í þá stöðu að þurfa að borga síðasta mánuð með næstu eða þar næstu launum. Það þykir ekki góður bragur á þeim rekstri og þetta er nákvæmlega það sem verið er að gera hér. Það er verið að taka lán inn í framtíðina, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan. Það er alveg sama hvað hæstv. ráðherra reynir að klóra í bakkann. Það er augljóst að þessum fyrirtækjum hefur með einhverjum hætti verið stillt upp við vegg þótt það hafi kannski ekki verið gert „fýsískt“, svo ég sletti aðeins, en stjórnendur þessara fyrirtækja hafa litið svo á að af tveimur slæmum kostum sé þessi þó skárri. Það skal enginn reyna að sannfæra mig um neitt annað.

Mér fannst hv. þm. Birgir Ármannsson koma með mjög góð rök gegn þessu máli þegar hann sagði: Hvað ef fyrirtækin lenda í rekstrarvanda á næstu þremur árum þegar þessi samningur á að gilda? Hvað ef þessi fyrirtæki lenda í þeirri aðstöðu og geta ekki borgað? Hvað verður þá um áætlanagerð þessarar fínu fyrstu vinstri stjórnar sem skipuleggur ríkisfjármálin þannig að það á að taka fyrir fram af skatttekjum framtíðarinnar? Það er óábyrgt og beinlínis hættulegt að mínu mati.

Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að fyrirtækin væru tryggð af fjárfestingarsamningum og þess vegna væri ekki hægt að fara í skattahækkanir umfram það sem almennt er, vil ég benda á að ef einbeittur brotavilji er fyrir hendi er það alveg hægt. Pólitískur aðstoðarmaður fjármálaráðherra, þáverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, kom á fund hv. efnahags- og skattanefndar í vor þar sem ég átti sæti. Við vorum þá að ræða fjárfestingarsamning fyrir álverið í Helguvík þar sem hann lagðist alfarið gegn þeim fjárfestingarsamningi. Hann kom með minnisblað þar sem lagt var til að fyrirliggjandi fjárfestingarsamningum m.a. við Fjarðaál yrði sagt upp. Ég man ekki alveg hvernig hann orðaði það en hann sagði eitthvað á þá leið að bætur til handa þeim vegna samningsbrotanna eða uppsagna samningsins yrðu lægri en tjónið sem það mundi valda að láta þessa samninga standa óbreytta. Þetta er því yfirklór hjá hæstv. iðnaðarráðherra sem segir að það sé ekki hægt að gera þetta. Það er allt hægt, það er hægt að brjóta samninga ef menn meta það þannig að tjónið af því að láta samningana standa óbreytta sé meira en að standa ekki við þá. Ég hvet menn til að skoða þetta minnisblað þegar farið verður að ræða þetta mál í nefndinni.

Ég tek líka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að þetta mál á að sjálfsögðu líka að ræða í efnahags- og skattanefnd. Það varðar skatta og er þannig mál að það er einboðið að það fari líka til umfjöllunar þar, ég tek undir ósk þingmannsins með það.

Frú forseti. Ég verð svo að segja að viðkvæmni hæstv. ráðherra varðandi það sem hún sjálf kallaði „fantasíumatseðil“ og er nú farin að kalla bábilju í fjárlagafrumvarpinu sem er með ólíkindum. Væntanlega var þetta ekki sett inn með hennar vitund vegna þess að mér finnst hæstv. ráðherra hafa tekið þannig á málum að hún er greinilega mótfallin því að leggja krónu á hverja kílóvattstund, eðlilega. Það eru ekki nema einhverjir súperskattlagningarspekúlantar sem eru tilbúnir að fara í ofurskattlagningu en því miður finnast þeir og eru í stjórnsýslunni núna, en það stóð til, vegna þess að þetta er hugmynd sem sett er fram í fjárlagafrumvarpinu. Og ég veit það eftir að hafa unnið í fjármálaráðuneytinu í langan tíma að þetta er ekki sett fram án þess að hafa verið rætt og ekki skrifað af einhverjum sem ekki ber pólitíska ábyrgð. Að minnsta kosti er þetta ekki lesið af einhverjum sem ekki ber pólitíska ábyrgð. Það var þannig alla vega í þá tíð í fjármálaráðuneytinu og ég efast um að þeir vænu embættismenn í fjármálaráðuneytinu láti slíkt viðgangast að þeir sem bera pólitísku ábyrgðina fari ekki yfir það sem stendur skrifað vegna þess að þeirra er á endanum ábyrgðin.

Frú forseti. Ég ætla að láta staðar numið. Ég vara við þessu máli. Það er vont. Það er, eins og hér hefur verið sagt, undarlegt mál og ég hvet hv. iðnaðarnefnd og hv. efnahags- og skattanefnd til að fara vel yfir þessi atriði og koma í veg fyrir að svona stjórnsýsla og svona lagasetning verði að veruleika.