Sjúkratryggingar

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 11:18:13 (0)


138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

sjúkratryggingar.

199. mál
[11:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræddum þetta mál nokkuð hér í skjóli nætur í gærkvöldi. Það var ágætisumræða en það er miður að það sé gert á þeim tíma sólarhringsins vegna þess að einn anginn af þessu máli er mjög stórt mál. Í örstuttu máli gengur þetta mál út á það að verið er að fresta dagsetningum á því hvenær Sjúkratryggingar Íslands eigi að taka yfir samningagerð sem varðar stofnanir á vegum ríkisins, sveitarfélaga og annarra þeirra aðila sem reka hjúkrunarheimili. Kaldhæðnin í málinu er sú að þessu er frestað fram til 1. janúar 2011 og er það gert af praktískum ástæðum vegna þess að þetta er mikið umfang sem sjúkratryggingar eru að taka yfir, en eins og kunnugt er sömdu þrír aðilar um kaup og sömdu um heilbrigðisþjónustu við aðila. Það var heilbrigðisráðuneytið, það var sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar og samninganefnd heilbrigðisráðherra. Þetta var sameinað í Sjúkratryggingar Íslands til að ná heildaryfirsýn og reyna að ná að vinna þessi mál jafn vel og mögulegt er.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi — og þetta hefur ekki fengist rætt að neinu marki, hvorki í hv. heilbrigðisnefnd og alls ekki fjárlaganefnd — á að færa heilbrigðisþjónustu sem samsvarar, ef við tökum upphæðirnar í fjárlögum, 20 milljörðum kr. frá heilbrigðisráðuneyti yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Engin umsögn hefur komið um þessa gríðarlegu tilfærslu á heilbrigðisþjónustu í alls óskylt ráðuneyti. Engin umsögn, ekki ein.

Í því frumvarpi sem við ræðum hér er gert ráð fyrir að sjúkratryggingar taki yfir samningagerð við þá sem reka hjúkrunarheimili 1. janúar 2011 en í fjárlögum er verið að færa, og það er á skjön við þetta frumvarp, samningana við hjúkrunarheimilin yfir í allt annað ráðuneyti. Menn eru að fara algjörlega á skjön við það sem var lagt upp með fyrir tveimur árum í ágætri pólitískri sátt, að setja samningagerðina á einn stað. Þetta eru ekkert annað en pólitísk hrossakaup, virðulegi forseti, á milli ráðherra. Það eru engin fagleg rök sem hafa komið fram, engin.

Enginn umsagnaraðili hefur verið fenginn til að koma með umsögn um þennan gríðarlega verkefnatilflutning upp á 20 milljarða kr. Þó hefur borist umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem tók upp á því að senda hana inn án þess að vera beðið um það. Hún var mjög skýr. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga lagðist gegn því að þetta yrði gert og nefndi mörg fagleg rök fyrir því. Það sagði að hér væri verið að fara þveröfuga leið við það sem menn hafa verið að reyna að gera, að setja faglega og fjárhagslega ábyrgð á sama stað. Í þessu tilfelli ætla menn að hafa faglega þáttinn á einum stað og fjárhagslega ábyrgð á öðrum. Á sama hátt eru menn að brjóta þá yfirsýn sem hefur verið á einum stað varðandi heimahjúkrun, skammtímavistun og hjúkrunarheimili. Nú á að taka einn þáttinn út.

Það hefur komið fram, í stuttri umfjöllun í hv. heilbrigðisnefnd um málið, að þetta er algjörlega óundirbúið og það kemur kannski skýrast fram í frumvarpinu. Það stendur að Sjúkratryggingar Íslands eigi að sjá um samningagerðina frá 1. janúar 2011 en þetta verður ekkert hjá heilbrigðisráðuneytinu þá ef fjárlagafrumvarpið nær fram að ganga eins og það er.

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekkert tekið það neitt sérstaklega alvarlega þegar forustumenn vinstri manna eru að tala um fagleg vinnubrögð, samráð og alla þessa hluti, sem er iðulega gert við öll möguleg og ómöguleg tækifæri. En ef einhverjir velkjast í vafa um að þau vinnubrögð séu virt að vettugi í stórum málum er þetta lifandi sönnun þess. Hér eru bara pólitísk hrossakaup en fagleg sjónarmið í þessum viðkvæma málaflokki eru algjörlega virt að vettugi.

Við erum hér með gríðarlega stór mál eins og við ræddum áðan. Hér er um sjálfa heilbrigðisþjónustuna að ræða. Menn eru að vonast til þess að hægt sé að læða þessu í gegn í skjóli nætur og skiptir engu máli þó að ekkert samræmi sé í þessu, t.d. við þau lög sem á að samþykkja hér. Mönnum er nákvæmlega sama þó að ekki sé farin sú hefðbundna leið sem farin er í þingstörfum, við bæði stór og smá mál, að menn fá umsagnir aðila til þess að þingmenn geti áttað sig betur á viðkomandi máli.

Almenna reglan er sú, virðulegi forseti, og það þekkja hv. þingmenn, vegna þess að hér ræðum við auðvitað mjög margvísleg mál, að þingmönnum er skipt í nefndir en breiddin er slík í hverri nefnd að mjög nauðsynlegt er að fá sjónarmið þeirra aðila sem starfa á vettvangi, fagaðila og annarra, til að heildarmynd náist á málið. Þannig hafa þingstörfin verið. Þegar mál koma fram, stór og smá, eru þau send til umsagnar. Menn fá síðan umsagnirnar, meta þær, fá gesti eftir því sem við á.

Hér erum við með risamál og ekki hefur verið beðið um eina einustu umsögn. Við fórum fram á það, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í heilbrigðisnefnd, að umsagnir yrðu veittar um þetta gríðarlega stóra mál. Þetta er að vísu ekki á vettvangi heilbrigðisnefndar. Við áttum að koma með viðhorf okkar hvað þetta varðaði til fjárlaganefndar en fjárlaganefnd var búin að taka málið út áður en sjónarmið heilbrigðisnefndar bárust til fjárlaganefndar. Ekki það að þegar heilbrigðisnefnd kom fram með umsögn sína um fjárlögin kom fram hjá öllum, meiri hluta og einnig 1. og 2. minni hluta, mjög mikil gagnrýni á þetta.

Það er algjörlega ljóst að þau fátæklegu rök sem tínd hafa verið til standast enga skoðun. Ein rökin sem nefnd hafa verið eru þau að þetta snúist um það að öldrun sé ekki sjúkdómur. Það er alveg rétt en þetta snýr ekki bara að þeim sem eldri eru, hjúkrunarheimilin eru fyrir fólk á öllum aldri og enginn fer inn á hjúkrunarheimili nema vera veikur. Reyndar hefur það verið gagnrýnt að vistunarmatið, sem metur það hvort fólk hefur rétt til þess að fara inn á hjúkrunarheimili eða ekki, sé stíft, að fólk þurfi með öðrum orðum að vera mjög veikt til að komast þar inn. Þetta er því ekki félagslegt búsetuúrræði eða neitt slíkt. Það velur enginn að fara á hjúkrunarheimili bara vegna þess að viðkomandi hafi áhuga á því að búa þar. Þetta snýst ekki um það. Þetta er partur af heilbrigðisþjónustu okkar og þetta er mjög góður partur.

Það hefur einnig verið nefnt að þetta snúist um það að færa eigi þessa þjónustu yfir til sveitarfélaga. Nú er það bara þannig að félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur ekkert með sveitarfélögin að gera. Samgönguráðuneytið hefur með sveitarfélögin að gera. Þrátt fyrir það eru engin rök fyrir því að vera með eitthvert millistig, nákvæmlega engin. Enda var það ekki þannig þegar grunnskólarnir voru færðir til sveitarfélaganna að menn hafi fyrst fært grunnskólana til sveitarstjórnarráðuneytisins. Menn færðu þá beint frá ríkinu, frá menntamálaráðuneytinu — og reyndar var það menntamálaráðuneytið sem stýrði þeim samningum fyrir hönd ríkisvaldsins — yfir til sveitarfélaganna. Málefni grunnskólanna eru heldur ekki hjá sveitarstjórnarráðuneytinu, málefni grunnskólanna eru að sjálfsögðu hjá menntamálaráðuneytinu þrátt fyrir að sveitarfélögin sjái um rekstur grunnskólans.

Það er líka öllum ljóst, og það hefur komið fram í öllum þeim minnisblöðum sem við höfum fengið frá heilbrigðisráðuneytinu, að það er mjög mikilvægt að yfirsýn sé á einum stað. Þess vegna fóru menn í það að setja sjúkratryggingar á stofn. Það var til þess að yfirsýn yrði á einum stað. Og af hverju skiptir það máli, virðulegi forseti? Það er mjög skýrt dæmi varðandi þessa þjónustu. Það er markmið allra, stjórnmálaafla, fagaðila og þeirra sem hafa hagsmuna að gæta, að gera fólki kleift að búa eins lengi heima hjá sér og mögulegt er. Þegar fólk er orðið veikt er það hins vegar ekki hægt nema með aðstoð. Það er gert með heimahjúkrun og einnig með félagslegri aðstoð sem heitir heimaþjónusta. Það er í flestum tilfellum ekki nóg því skammtímaúrræði þurfa líka að vera til staðar sem styðja við bakið á þessari heimahjúkrun. Er það gert til þess að fólk sem þarf á þessari þjónustu að halda geti komist í endurhæfingu og það er líka ákveðin hvíld fyrir aðstandanda sem vill eðli máls samkvæmt hafa maka sinn, svo að dæmi sé tekið, eins lengi heima og mögulegt er en þarf að leggja mikið á sig til að svo megi verða. Þess vegna erum við með þessi skammtímaúrræði sem eru bæði dagdeildir og sólarhringsvistanir. Það er nú reyndar þannig, virðulegi forseti, að þessi þáttur er ekki bara faglega góður, hann er líka fjárhagslega hagkvæmur. Dýrasta úrræðið er hjúkrunarheimilin. Hvert hjúkrunarrými kostar í rekstri 8 millj. kr. á ári. Bæði af faglegum og fjárhagslegum ástæðum hefur það gengið nokkuð hratt hjá okkur að færa þjónustuna í auknum mæli heim.

Ef fjárlögin ná fram að ganga eru fjárhagsleg og fagleg yfirsýn ekki lengur á einum stað. Hvað þýðir það? Það þýðir að yfirfærsla á milli þessara aðila verður erfiðari. Heilbrigðisráðuneyti þarf þá að koma bónleið til félags- og tryggingamálaráðuneytis þegar bæta á þjónustu. Þeir sem hafa komið nálægt stjórnsýslu eða stjórnmálum vita að samskipti milli ráðuneyta er ekki það einfaldasta sem til er. Það er algjörlega ljóst að þetta mun ekki bara verða flækjustig, þetta mun verða til þess að skerða þjónustu við sjúklinga.

Hér erum við 16. desember, á síðustu metrunum, að klára þetta gríðarstóra mál sem er þvert gegn hagsmunum sjúklinga. Það er þvert á öll markmið um að auka og bæta þjónustuna fyrir þá sem þurfa á henni að halda. Þetta er algerlega órætt. Ekki hefur ein einasta fagleg umsögn fengist, engin. Það hefur verið upplýst að félags- og tryggingamálaráðuneytið er ekki tilbúið til að taka við þessum málaflokki.

Ég er hér að tala til hv. stjórnarþingmanna. Ég er að vonast til þess að í þessu máli og þessum málaflokki sem hefur nú ekki verið mikill pólitískur ófriður um fram til þessa — markmiðin eru skýr og öll stjórnmálaöfl á Íslandi vilja það sama í þessum málaflokki, ég ætla engum annað. Ég hvet hv. stjórnarþingmenn til að gera það rétta í þessu máli og í það minnsta hinkra með þetta mál meðan við fáum að ræða það. Í það minnsta hinkra með það til þess að fagaðilar, þeir sem vinna við þetta, hjúkrunarfræðingar, heilbrigðisstéttir, öldrunarlæknar, þeir sem koma að þessum rekstri, fái að segja skoðun sína.

Við ræddum hér annað algjörlega óskylt mál sem er hvorki meira né minna en sala, hugsanlega án heimildar, á verðmætum upp á hundruð milljarða, sem læðist svona í gegn af því við erum ekki að vinna skipulega, við erum ekki að vinna faglega, það er bara staðreynd. Hér er skólabókardæmi um það. Valkosturinn fyrir stjórnarliða er sá að líta á þetta sem pólitísk hrossakaup á milli ráðherra eða vinna þetta faglega. Ef menn vilja vinna þetta faglega tökum við þetta af borðinu og ræðum þetta betur. Ef menn vilja taka þennan viðkvæma stóra málaflokk og láta hann gjalda fyrir pólitísk hrossakaup á milli ráðherra skulu menn halda áfram eins og nú er gert. Það gerir líka að verkum að frumvarpið er í raun strax orðið úrelt, þessi breyting.