Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 18:01:12 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um málefni aldraðra og lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Tryggingastofnun ríkisins, Vinnumálastofnun, Íbúðalánasjóði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, ASÍ, BHM, BSRB, Kennarasambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins, Öryrkjabandalaginu, Landssambandi eldri borgara, Félagi eldri borgara og Þroskahjálp. Umsagnir bárust nefndinni frá Velferðarvaktinni, Alþýðusambandi Íslands, Jafnréttisráði, Samtökum fjármálafyrirtækja, Þroskahjálp, Jafnréttisstofu, Tryggingastofnun ríkisins, Félagi stúdenta við Háskólann á Akureyri, Stúdentafélagi Hólaskóla, Nemendafélagi Landbúnaðarháskóla Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sex lögum. Umfangsmestar eru breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Í fyrsta lagi er lagt til að valdsvið úrskurðarnefndar almannatrygginga verði rýmkað. Í öðru lagi að hámarksfrestur úrskurðarnefndarinnar verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá. Í þriðja lagi verði kveðið á um aðfararhæfi endurkrafna ofgreiddra bóta. Í fjórða lagi verði örorkulífeyrir greiddur frá 18 ára aldri í stað 16 ára sem hafi þó ekki áhrif á þá sem þegar fá greiddan lífeyri en hafa ekki náð 18 ára aldri. Í fimmta lagi að heimilt verði að greiða bætur í einu lagi eftir á óski bótaþegi þess og í sjötta lagi er lagt til að breytingar verði gerðar á reglum um innheimtu ofgreiddra bóta.

Þeim breytingum sem lagðar eru til á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, er m.a. ætlað að styrkja ríkjandi framkvæmd og veita henni skýra lagastoð. Þá eru lagðar til breytingar á ákvæði um heimild til greiðslu tvöfalds barnalífeyris ef annar foreldra eða báðir eru látnir sem og ef annar foreldra eða báðir eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar. Önnur veigamikil breyting sem lögð er til er að heimilt verði að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði á grundvelli endurhæfingaráætlunar auk þess sem m.a. er ekki lengur skilyrði lífeyrisins að á undan hafi verið greiddir sjúkradagpeningar eða slysadagpeningar. Þá er lagt til að ákvæði um sérstaka uppbót á lífeyri taki breytingum í samræmi við framkvæmd og ákvæði reglugerðar. Einnig er lagt til að það tímabil sem þarf að líða milli greiðslna uppbóta og styrkja til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða verði lögfest en það er fimm ár samkvæmt reglugerð.

Á lögum um Ábyrgðasjóð launa eru lagðar til þær breytingar að kröfur lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld í sjóðinn beri vexti til jafns við aðrar kröfur tengdar launum. Þá er lagt til að ábyrgðagjald í sjóðinn hækki úr 0,2% í 0,25% af gjaldstofni. Með þessu er verið að hverfa frá breytingum sem gerðar voru á lögunum og tóku gildi 1. júlí 2009.

Lagt er til að við lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, bætist ákvæði til bráðabirgða sem ætlað er að fresta greiðslum vegna þriðja sameiginlega mánaðar foreldra í orlofi þar til 36 mánuðir eru liðnir frá fæðingu barns eða frá því að barn kom inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur. Ákvæðin eiga að gilda frá 1. janúar 2010 til 31. desember 2011.

Í V. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um málefni aldraðra, nr. 152/1999. Er þeim ætlað að hækka framlag í Framkvæmdasjóð aldraðra, lagfæra orðalag ákvæðis um heimild Tryggingastofnunar til að halda eftir greiðslum vistunarframlags til daggjaldastofnunar og framlengja ákvæði um leiðréttingu kostnaðarþátttöku vistmanns í vistunarframlagi. Að auki er lagt til að Framkvæmdasjóði aldraðra verði veitt heimild til að verja fé úr sjóðnum til reksturs hjúkrunarrýma fyrir aldraða rekstrarárin 2012–2013.

Að síðustu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, sem er ætlað að veita Íbúðalánasjóði heimild til að lána sveitarfélögum fyrir allt að 100% af framkvæmdakostnaði við kaup eða byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða.

Nefndin hefur varið talsverðum tíma í að kynna sér sjónarmið aðila og leita lausna sem eru sársaukaminnstar í þeim niðurskurði sem gera þarf í ríkisfjármálum. Nefndin ræddi sérstaklega þær breytingar sem lagðar eru til á aldursviðmiði örorkubóta að því verði breytt úr 16 ára aldri í 18 ára aldur. Breytingin samrýmist barnaverndarlögum þar sem skýrt er kveðið á um að einstaklingar undir 18 ára aldri séu börn og er það í samræmi við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem til stendur að lögfesta.

Heildarendurskoðun á greiðslum til foreldra langveikra og fatlaðra barna stendur fyrir dyrum, bæði hvað varðar umönnunargreiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og greiðslur til foreldra samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Í c-lið 7. gr. frumvarpsins er lagt til að greiði lífeyrisþegar ekki ofgreiddar bætur til baka á 12 mánuðum eftir að krafa stofnaðist leggist 5,5% vextir á eftirstöðvar kröfunnar. Í athugasemdum með greininni kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að vera hvati fyrir einstaklinga til að endurgreiða fjárhæð sem þeir hafa fengið ofgreidda. Í lokamálslið ákvæðisins er kveðið á um að heimilt sé að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi og telur meiri hlutinn rétt að vextir verði einnig felldir niður hafi einstaklingur samið við Tryggingastofnun um endurgreiðslu ofgreiddra bóta, þó svo greiðslur samkvæmt þeim samningi standi lengur en 12 mánuði. Standi einstaklingur ekki við samning sinn um endurgreiðslur verði þó heimilt að leggja vexti á eftirstöðvar kröfunnar í samræmi við ákvæðið.

Í frumvarpinu er lagt til að frítekjumark vegna atvinnutekna haldist óbreytt við útreikning tekjutryggingar örorkulífeyrisþega. Að auki er lagt til að bætur almannatrygginga og meðlagsgreiðslur hækki ekki í takt við launaþróun eða verðlagsþróun eins og kveðið er á um í 69. gr. laganna. Er það í samræmi við fjárlagafrumvarp fyrir árið 2010 en þar er kveðið á um að ekki komi til hækkana á launum ríkisstarfsmanna eða á grunnfjárhæðum bótakerfanna. Hér er um að ræða heildstæða ráðstöfun sem ljóst má vera að verður ekki gripið til nema af brýnni nauðsyn því að það mun óhjákvæmilega leiða til skerðingar kaupmáttar hjá þessum fjölmennu hópum, en jafnt mun yfir alla ganga. Í því sambandi þarf þó einnig að horfa til þess að bótaþegar sem eru með hámarkstryggingu fengu 20% hækkun um síðustu áramót og aðrir bótaþegar fengu tæplega 10% hækkun.

Meiri hlutinn áréttar að um bráðabirgðaákvæði er að ræða og að lagafrumvarp um breytingar á almannatryggingakerfinu, sem byggist á heildarendurskoðun sem hefur farið fram frá árinu 2007, verði væntanlega lagt fram á vorþingi 2010.

Almenn sátt ríkir um þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um félagslega aðstoð. Veigamesta breytingin sem lögð er til er að heimilt verði að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði á grundvelli endurhæfingaráætlunar auk þess sem ekki er lengur skilyrði lífeyrisins að áður hafi verið greiddir sjúkradagpeningar eða slysadagpeningar. Meiri hlutinn er fylgjandi þessari breytingu og telur hana í anda þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á örorkumatskerfinu.

Í IV. kafla laganna eru lagðar til breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi. Hörð gagnrýni hefur komið fram á breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og ber þar hæst sjónarmið um mikilvægi þess að börn njóti samvista við foreldra sína sem lengst. Margir umsagnaraðilar bentu á að varast skyldi að skerða þann tíma sem börn hefðu til samvista við foreldra sína á mikilvægum tíma í mótunarskeiði þeirra og að með þessari breytingu væri réttur barna einstæðra mæðra til samvista við foreldra í ákveðnum tilfellum skertur niður í fimm mánuði. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og bendir jafnframt á að tillagan feli ekki í sér sparnað heldur frestun á útgjöldum ríkissjóðs um 3–4 ár. Ekki telst raunhæft að ætla að staða ríkissjóðs veiti svigrúm til að auka útgjöld vegna fæðingarorlofs sem óhjákvæmilega hlýst af því að frestaðir mánuðir bætast við útgjöld vegna fæðingarorlofs á árunum 2013 og 2014.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2010 er gert ráð fyrir að draga úr útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs um 1.200 millj. kr. Það er sú fjárhæð sem vantar í sjóðinn til að hann geti staðið undir áætluðum útgjöldum ársins 2010.

Meiri hlutinn leggur til að í stað þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu skuli mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi aldrei nema hærri fjárhæð en 300.000 kr. Þá leggur meiri hlutinn til að hlutfall af meðaltali launa og reiknaðs endurgjalds sem kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. verði óbreytt, 80%, fyrir þann hluta launa sem er undir 200.000 kr. og 75% fyrir laun umfram 200.000 kr. Sömu reglur gildi um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þannig er þrep sett inn í fæðingarorlofskerfið. Meiri hlutinn velur að leggja til blandaða leið, þ.e. að lækka bæði hámarksgreiðslur og hlutfall launa af launum umfram 200.000 kr. Ef hlutfallið hefði verið óbreytt hefði þurft að lækka mánaðarlegar greiðslur mun meira og ef hámarksfjárhæðin hefði verið óbreytt hefði hlutfallið þurft að lækka meira. Með þessari tillögu er staðinn vörður um kjör þeirra sem eru með lægri tekjur en jafnframt reynt að koma til móts við þá tekjuhærri. Þá er þrepið einnig sett inn til að mismuna ekki þeim sem eru í fullri vinnu samanborið við fólk í hlutastarfi.

Meiri hlutinn telur óheppilegt að verið sé að skerða fæðingarorlofið í þriðja sinn á stuttu tímabili. 1. janúar 2009 lækkuðu mánaðarlegar greiðslur úr 480.000 kr. í 400.000 kr. og 1. júlí sl. voru þær lækkaðar í 350.000 kr. Meiri hlutinn telur að lengra verði ekki gengið og ef þær breytingar sem nú eru lagðar til dugi ekki verði að hækka tryggingagjaldið eða endurskoða fæðingarorlofskerfið í heild sinni.

Meiri hlutinn telur að skynsamlegra hefði verið að taka tillit til aukinnar fjárþarfar Fæðingarorlofssjóðs þegar tryggingagjaldið var hækkað 1. júlí sl. og í fyrirhugaðri hækkun 1. janúar 2010. Er það umhugsunarefni í ljósi þess að tryggingagjaldið er lögbundinn tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs. Fæðingarorlofskerfið var mun örlátara tryggingakerfi en önnur tryggingakerfi og því réttlætanlegt í því ástandi sem nú ríkir að skerða greiðslur þess umfram aðrar tryggingagreiðslur en nú telur meiri hlutinn að ekki verði lengra gengið. Áætlað er að breytingartillaga meiri hlutans skili 1.000 millj. kr. sparnaði í stað 1.200 millj. kr. eins og kveðið er á um í fjárlagafrumvarpi. Þessi leið er valin þar sem ekki er komin reynsla á fyrri skerðingar ársins. Vísbendingar eru um að karlar taki fæðingarorlof í minna mæli nú á síðari hluta ársins. Meiri hlutinn treystir sér ekki til að meta hvort það er vegna skerðingar hámarksfjárhæðar eða vegna þess að fólk sé hræddara um stöðu sína á vinnumarkaði. Þá telur meiri hlutinn að yfirlýsingar sem heyrst hafa á opinberum vettvangi um að eðlilegt væri að skerða rétt feðra til fæðingarorlofs í sparnaðarskyni séu ekki til þess fallnar að hvetja feður til að taka fæðingarorlof né í anda þeirrar jafnréttishugsjónar sem er ein af grunnstoðum fæðingarorlofskerfisins.

Meiri hlutinn fer þess á leit við félags- og tryggingamálaráðherra að hann láti kanna áhrif skerðinga greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á orlofstöku foreldra með tilliti til framangreindra skerðinga. Það er mjög alvarlegt ef foreldrar stytta fæðingarorlof með börnum sínum af fjárhagslegum ástæðum og slæmt fyrir jafnrétti til lengri tíma ef feður stytta fæðingarorlofstíma sinn hlutfallslega meira en mæður.

Meiri hlutinn áréttar að haldi svo fram sem horfir þarf að taka fjármögnun fæðingarorlofskerfisins alls til gagngerrar endurskoðunar. Því kerfi sem lagt var upp með við gildistöku laganna árið 2000 var ekki tryggt nægt fjármagn og nauðsynlegt er að tryggja kerfinu fjármagn jafnt í góðæri sem kreppu. Meiri hlutinn áréttar að setja þurfi skýrar reglur um fjármögnun fæðingarorlofs og tryggja hana hvernig sem árar í efnahag þjóðarinnar. Mikilvægt er að standa vörð um fæðingarorlofskerfið og þá sátt sem um það ríkir enda náðist mikilvægur áfangi í jafnréttisbaráttu þegar kerfinu var komið á.

Þá telur meiri hlutinn rétt að árétta að þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar til skerðingar orlofsins hefur ávallt verið ætlað að vera tímabundnar eins og kemur skýrt fram í athugasemdum frumvarpa við þær breytingar. Telur meiri hlutinn mikilvægt að þessu sé viðhaldið og eigi við jafnt um þá breytingu sem nú er lögð til sem og þær sem á undan hafa komið. Mikilvægt er að þegar aðstæður í ríkisfjármálum leyfa gangi skerðingarnar að fullu til baka.

Í VI. kafla frumvarpsins er lagt til að Íbúðalánasjóður fái heimild til að veita sveitarfélögum 100% lán til að standa undir framkvæmdakostnaði við kaup eða byggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Meiri hlutinn telur ljóst að binda þarf lánin frekari skilyrðum og auka skýrleika ákvæðisins m.a. hvað varðar lánskjör. Meiri hlutinn leggur því til að lán vegna hjúkrunarheimila verði skilgreind sérstaklega í 2. gr. laga um húsnæðismál og að auki verði gerðar viðeigandi breytingar á ákvæði frumvarpsins um lánin. Mikilvægt er að lánin verði einungis veitt sé leyfi til staðar og þörf á rýmum í því sveitarfélagi sem sækir um slíkt lán. Leggur nefndin því til að gert verði að skilyrði fyrir veitingu lánsins að samkomulag hafi náðst við félags- og tryggingamálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið um byggingu og leigu hjúkrunarheimilis. Að auki verði ákvæðið gert ítarlegra og skýrara. Þá hafa meiri hlutanum verið kynnt sjónarmið þess efnis að tryggja þurfi að fullnægjandi tryggingar standi að baki lánum af þessu tagi og leggur því til að tekinn verði af allur vafi um að veð í eigninni standi að baki en annars sé það Íbúðalánasjóðs að meta tryggingar. Jafnframt verði bætt við reglugerðarheimild þar sem ráðherra geti sett frekari ákvæði um skilyrði lána vegna hjúkrunarheimila, svo sem um lánsumsóknir, lánskjör og lánveitingu, þar með talið lánveitingu á framkvæmdatíma.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálit þetta rita Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, varaformaður, Árni Þór Sigurðsson, Ólína Þorvarðardóttir, Þuríður Backman, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Björn Valur Gíslason.