Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 18:18:05 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ýmislegt sem þarf að varast þegar þjóðir lenda í kreppu. Eitt af því er að missa ekki af mannréttindum, annað er að missa ekki af grundvallaratriðum eins og t.d. jafnrétti kynjanna. Ég tel að Fæðingarorlofssjóður sé ein af þeim grunnstoðum sem eiga að stuðla að jafnrétti kynjanna vegna þess að það gerir karlmenn jafndýra á vinnumarkaði og konur.

Nú er enn einu sinni höggvið í þann knérunn að lækka hámarkið, sem segir mér að menn vilja hafa jafnrétti kynjanna nema í háu laununum — það segir mér það — sem þýðir að karlmenn sem eru með há laun fara ekkert heim og verða þar af leiðandi ekki dýrari fyrirtækjunum en konur í sömu stöðu sem mundu fara heim. Það er því verið að hrekja konur úr háum launum yfir í lág laun og ég tel þetta mjög varasamt.

Nú hafa nefndarmenn bent á og það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að fjármögnunin sé ekki í lagi. Fjármögnun ríkissjóðs er bara yfirleitt ekki í lagi og menn þurfa virkilega að fara að velja og hafna hvað eigi að standa og hvað ekki, menn þurfa að velja hvað sé mikilvægt. Ég tel t.d. að jafnrétti kynjanna sé afskaplega mikilvægt mál vegna þess að það gerir það að verkum að hæfustu einstaklingarnir eru valdir í stöður burt séð frá kyni, (Gripið fram í: Óháð kyni.) já, burt séð frá kyni.

Ég vil spyrja hv. framsögumann meiri hlutans hvort það hafi virkilega ekki fundist neins staðar matarhola í niðurskurðarkostnaði ríkisins. Ég hef nefnt t.d. Íbúðalánasjóð, ég hef nefnt ýmislegt annað sem menn geta skorið niður, hvort þetta sé það ómerkilegt að það megi skerða.