Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 18:24:42 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fél.- og trn. (Guðmundur Steingrímsson) (F):

Frú forseti. Þetta er nokkuð yfirgripsmikið lagafrumvarp og sem fyrr í mörgum málum á þessu missiri er ástæða til að gagnrýna flýtinn, að svona yfirgripsmikið mál sem varðar breytingar á sex lagafrumvörpum skuli vera keyrt í gegnum þingið á svo stuttum tíma. Líka má gagnrýna það að í dag skuli dagskrá þessa kvöldfundar vera kynnt með svo skömmum fyrirvara að maður vissi ekki fyrr en núna rétt undir klukkan sex að þetta tiltekna mál væri á dagskrá akkúrat núna. Það er ástæða til að gagnrýna þetta og færa það til bókar.

Eins og ég segi, þetta er yfirgripsmikið mál og ég sem framsögumaður 1. minni hluta í félags- og tryggingamálanefnd er í meginatriðum sammála áliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar hvað varðar nokkurn veginn allt nema 16. gr. frumvarpsins þar sem lögð er til skerðing á Fæðingarorlofssjóði. Legg ég til breytingu á frumvarpinu sem er þess efnis að 16. gr. verði einfaldlega felld brott og horfið verði frá skerðingu á fæðingarorlofsgreiðslum, enda er þegar búið að skerða fæðingarorlofsgreiðslur tvisvar á innan við ári og það er einfaldlega komið nóg. Nú þarf að leita annarra leiða til að tryggja fjármögnun sjóðsins, hann er þegar berstrípaður og kominn langt yfir sársaukamörk og ég kem betur að þessu síðar.

Varðandi aðra liði frumvarpsins: Úrskurðarnefnd almannatrygginga fær rýmkað verksvið og hámarksfrestur til að úrskurða er aukinn í þrjá mánuði úr tveimur. Þetta er góð breyting en í meðförum nefndarinnar komu fram þau sjónarmið að það þyrfti að fara dálítið í saumana á úrskurðarnefnd almannatrygginga og störfum hennar þar sem þeim sjónarmiðum var haldið á lofti að þrír mánuðir væru engan veginn nóg miðað við umfang verkefna nefndarinnar og það væri pottur brotinn hvað varðaði þennan hámarksfrest. Margoft hefði komið í ljós að nefndin tæki mun fleiri mánuði en þrjá til þess að úrskurða. Það er því greinilegt að fara þarf aðeins í saumana á þessu regluverki í kringum úrskurðarnefnd almannatrygginga.

Lagt er til í frumvarpinu að aldur til að fá greiddan örorkulífeyri verði færður úr 16 ára upp í 18. Þetta er skiljanleg breyting. Samkvæmt öðrum lögum og sáttmálum sem við erum aðilar að, eins og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hinu og þessu, eru börn skilgreind börn þangað til þau eru 18 ára, en það þarf auðvitað að fara í allt regluverkið íslenska og reyna að skapa eitthvert samræmi í þessu, þannig að börn séu börn til 18 ára alls staðar gagnvart lögunum. Svo þarf auðvitað að trygga það að samfara þessari breytingu verði farið í endurskoðun á greiðslum til foreldra til að annast börn sín. Hér á að spara 120 milljónir á tveimur árum og það verður að tryggja það að þessar 120 milljónir lendi ekki af fullum þunga á foreldrum þeirra barna sem eru á milli 16–18 ára, á þessu árabili. Mér skilst að heildarendurskoðun á greiðslum til foreldra vegna umönnunar barna með örorku sé í gangi og þetta sé unnið í samráði við hagsmunasamtök og grasrótarsamtök fatlaðra og mér finnst því ástæða til að styðja þessa breytingu. Einnig eru gerðar ívilnandi breytingar á fyrirkomulagi greiðslu barnalífeyris og ég styð það.

Varðandi málefni aldraðra: Framkvæmdasjóður aldraðra fær þarna tímabundna heimild til að taka á sig rekstrarkostnað vegna hjúkrunarrýma. Um leið og það er stutt vil ég leggja áherslu á að það er mikilvægt að þetta sé tímabundið en verði ekki meginregla í útgjöldum Framkvæmdasjóðs aldraðra. Hann á ekki að taka þátt í rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma, a.m.k. þyrfti þá að ræða það af meiri dýpt áður en sú pólitískt stefnumótandi ákvörðun yrði tekin, þannig að þetta er tímabundið.

Ég styð líka breytingar sem lagðar eru til af meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar á ákvæðinu um Íbúðalánasjóð. Í fyrirliggjandi frumvarpi er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður fái nánast ótakmarkaða heimild til að lána 100% til byggingar hjúkrunarrýma en þessi heimild er takmörkuð samkvæmt tillögu meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar og ég styð það. Ég held að það sé mikilvægt að opna ekki þarna bara fyrir krana fjárútstreymis frá Íbúðalánasjóði til byggingar hjúkrunarrýma heldur sé bygging slíkra rýma eftir sem áður háð samkomulagi ráðuneytis og sveitarfélaga og það séu líka einhver ákvæði um það hvaða veð Íbúðalánasjóður á að taka þegar hann lánar 100% til hjúkrunarrýma.

Þá kem ég að því sem ég geri ágreining um, annars vegar varðandi frítekjumark og að bætur almannatrygginga hækki ekki. Það að bætur almannatrygginga hækki ekki samkvæmt verðlagsþróun er auðvitað gegn ákvæðum laganna, en í lögunum er kveðið á um að bætur almannatrygginga eigi að hækka samkvæmt verðlagsþróun. Ég ætla því ekki að styðja þetta ákvæði frumvarpsins þegar kemur til sérstakrar atkvæðagreiðslu um það, en ég hyggst hins vegar láta harm minn í ljós um það að ekki sé hægt að framfylgja lögunum hvað þetta varðar einfaldlega með hjásetu um þetta atriði. Ég mælist þá til þess að við skoðum hvað við erum að gera með svona ákvæði í lögunum ef við getum ekki staðið við þau þegar kannski mest áríðandi er einmitt að standa við þau, þegar verðbólguskot verður í þjóðfélaginu og hitt og þetta og mest áríðandi er að standa vörð um kjör þeirra sem minnst hafa á milli handanna. Ég fer ekki nánar út í það en þetta hryggir mig, skulum við segja.

Kem ég þá að því sem ég geri beinlínis ágreining um og mótmæli harðlega og það er 16. gr. fyrirliggjandi frumvarps þar sem lagt er til að farið verði í skerðingu á greiðslum Fæðingarorlofssjóðs í þriðja skipti á innan við ári. Ég fagna því út af fyrir sig að samkomulag náðist í nefndinni um að vísa alfarið burt þeirri tillögu sem er í frumvarpinu um að foreldrum verði gert að fresta einum mánuði af sameiginlegu fæðingarorlofi þangað til einhvern tíma síðar. Það fannst mér afleit hugmynd eins og ég lýsti hér við 1. umr. þessa máls og það kom í ljós að það var algjör samhljómur í nefndinni um það álit á þeirri hugmynd. Ég heyrði ekki betur við 1. umr. en að hæstv. ráðherra deildi líka andúð sinni á þeirri hugmynd þannig að hún var andvana fædd. Ég held að sjaldan hafi nokkur hugmynd verið jafnandvana fædd á hinu háa Alþingi, a.m.k. á undanförnum árum. Það er dálítið merkilegt að hér var lögð fram tillaga sem enginn studdi og því má spyrja sig: Hvaðan kom sú tillaga og til hvers var hún lögð hér fram? En gott og vel.

Breytingartillaga meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar við 16. gr. felur auðvitað í sér mun skárri skerðingu en hún felur í sér skerðingu engu að síður og ég styð það ekki. Ég styð ekki að það verði farið í frekari skerðingu á Fæðingarorlofssjóði. Meiri hluti félags- og tryggingamálanefndar leggur til að farið verði í lækkun á þaki eða sem sagt lækkun hámarksgreiðslna niður í 300 þúsund úr 350. Það er þá þriðja lækkun hámarksgreiðslna á innan við ári og mér finnst þetta of langt gengið, mér finnst þetta allt of langt gengið. Jafnframt er lagt til að af tekjum yfir 200 þúsund verði einungis greidd 75% í stað 80% til foreldra.

Nú finnst mér að við þurfum að spyrja okkur grundvallarspurninga varðandi Fæðingarorlofssjóð. Ég er mjög stoltur af þessu kerfi. Framsóknarflokkurinn tók þátt í því og stóð að því með stolti að koma þessu kerfi á upp úr aldamótum. Eitt megineinkenni á þessu kerfi er að jafn réttur kynjanna er tryggður gagnvart því, að feður hafa jafnan rétt á við mæður til þess að njóta fæðingarorlofs, og ég fagna því út af fyrir sig eins og hv. varaformaður félags- og tryggingamálanefndar að það er samhljómur um það að hrófla ekki við feðraorlofinu, enda væri það gríðarlegt skref aftur á bak ef það yrði gert. Við erum með níu mánaða fæðingarorlof og ég held að það sé áríðandi að hafa það þannig og ég held að það sé áríðandi að stefna að því til lengdar að lengja fæðingarorlofið, eins og gert er ráð fyrir í aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna frá 13. júní 2007 og var rætt í þinginu fyrr í dag, þá var gert ráð fyrir því að lengja fæðingarorlofið. Það á að sjálfsögðu að vera markmiðið.

Núna stöndum við frammi fyrir því að við erum með berstrípaðan Fæðingarorlofssjóð sem vantar 1,2 milljarða miðað við áætlanir. Þá þurfum við auðvitað að spyrja okkur: Hvernig ætlum við að fjármagna þennan sjóð? Við viljum væntanlega hafa hann svona, við viljum hafa níu mánaða fæðingarorlof á Íslandi. Það eru mjög sterkar röksemdir fyrir því að það sé ákveðið samtryggingakerfi að samfélagið allt fjármagni, ef svo má að orði komast, fæðingar í landinu. Við viljum fjölgun Íslendinga, við viljum að Íslendingum sé gert kleift að fjölga sér. Þetta er fagur og innihaldsríkur hluti þess að vera til. Mér finnst mjög sterkar röksemdir fyrir því að það sé ákveðið samtryggingakerfi sem stuðlar að því að fólk á barneignaraldri þurfi ekki að verða af of miklum tekjum þegar það eignast börn. Þetta er verkefni okkar allra og það er líka sett þannig upp, Fæðingarorlofssjóður á að fá ákveðið hlutfall af tryggingagjaldi þannig að allir leggja til Fæðingarorlofssjóðs. Nú vantar einn milljarð, sjóðurinn er berstrípaður.

Þá vaknar auðvitað sú áleitna spurning: Af hverju hefur fjármögnun sjóðsins í samræmi við lagaákvæði um það að sjóðurinn á að fá hlutfall tryggingagjalds, af hverju hefur fjármögnunin ekki verið tryggð? Það kom mér verulega á óvart þegar aðilar vinnumarkaðarins komu á fund félags- og tryggingamálanefndar og ég gat ekki heyrt betur en að þeir lýstu því yfir að þetta hafi ekki komið til tals við þá. Ég veit svo sem ekkert hver þeirra viðbrögð hefðu verið við þessu, en ég tel eðlilegt og hefði talið eðlilegt að þegar prósentuhlutfall tryggingagjalds var endurmetið fyrr á árinu hefði Fæðingarorlofssjóður og fjárþörf hans átt að koma inn í það. 1,2 milljarðar mundu þýða í prósentustigum hækkun tryggingagjalds upp á 0,17 prósentustig. Það er 2% hækkun á tryggingagjaldi reiknast mér til en tryggingagjald er upp á 50 milljarða í innkomu fyrir ríkissjóð og við erum að tala um að hér vanti 1,2 miðað við áætlanir og það getur vel verið að áætlanir hér séu ríflegar, kannski vantar minna. Ég hefði haldið að þetta hefði átt að ræða við aðila vinnumarkaðarins og það hefði vel verið hægt að ræða við aðila vinnumarkaðarins líka um það að ríkið kæmi þá með einhverjar mótvægisaðgerðir t.d. gagnvart sveitarfélögunum og gagnvart atvinnulífinu ef atvinnulífið hefði talið erfitt í þessu árferði að taka á sig þessar auknu byrðar. Það er líka hægt að hugsa sér einhverja blandaða leið, að hækka tryggingagjaldið um 0,07 prósentustig og sækja þar með 500 milljónir inn í kerfið að sinni og sleppa þessum niðurskurði á Fæðingarorlofssjóðnum.

Það kemur fram í áliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar að meiri hlutinn telur að það þurfi að fara í þessa vinnu, að það þurfi að tryggja framtíðarfjármögnun Fæðingarorlofssjóðs. Ég segi: Af hverju ekki að gera það núna? Í ljósi þess legg ég til að horfið verði algjörlega frá skerðingu í sjóðinn að þessu sinni, enda er þetta í þriðja skipti sem er skert í sjóðinn.

Við þurfum líka að ákveða, og það er enginn tími til þess betri en núna, hvort við ætlum að láta samtrygginguna í þjóðfélaginu fjármagna þennan sjóð. Það er ákvörðun sem við stöndum frammi fyrir. Það má líka setja spurninguna svona upp: Hér vantar 1,2 milljarða samkvæmt áætlunum. Sjóðurinn á að vera fjármagnaður samkvæmt ákveðnu samtryggingakerfi. Ætlum við að láta þá einstaklinga sem eignast börn á árunum 2010 og 2011 taka á sig þennan rúma milljarð eða ætlum við að láta samfélagið axla þá byrði? Ég segi samfélagið, vegna þess að niðurskurðurinn til sjóðsins hefur þegar verið of mikill, við erum komin yfir sársaukamörk hvað það varðar og við stöndum einfaldlega frammi fyrir þessari spurningu núna. Það hefði vel verið hægt að gera þetta og það er enn hægt að gera þetta í samráði við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs.

Ég vil líka benda á það að Fæðingarorlofssjóður og þetta verkefni sem við stöndum frammi fyrir varðandi hann er ekkert tengt hruninu. Það skapaðist enginn sérstakur vandi í Fæðingarorlofssjóði þannig séð út af hruni bankanna. Það er einfaldlega metár í fæðingum árið 2009 og það er ánægjulegt en við eigum að geta haft á Íslandi sjóð sem getur axlað slíkar sveiflur. Nú erum við búin að skera niður það mikið að við erum komin alveg að mörkunum þar og yfir mörkin, þannig að ef þessi sjóður getur ekki fjármagnað kerfið núna getur hann það aldrei. Við þurfum að takast á við þessa spurningu akkúrat núna.

Ég legg til að 16. gr. frumvarpsins falli brott og að við förum í það verkefni, enda sýnist mér í raun og veru að allir séu sammála um það, a.m.k. í félags- og tryggingamálanefnd, að við förum í það verkefni að tryggja einfaldlega fjárhagsgrundvöll Fæðingarorlofssjóðs og gerum það eins og manneskjur, þannig að Fæðingarorlofssjóður geti stutt fólk á barneignaraldri á Íslandi burt séð frá því hvort það er kreppa eða góðæri í landinu. Þetta er afstaða mín sem framsögumanns 1. minni hluta.