Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 18:44:18 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég taldi rétt að vekja athygli á þessu atriði sérstaklega vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem við stöndum hér, þingmenn á Alþingi, og gagnrýnum vinnubrögðin og flýtinn og fljótaskriftina á þessu öllu saman og ég deili þeim áhyggjum með hv. þingmanni að þetta sé frekar orðin reglan en undantekning. Það veldur mér líka áhyggjum vegna þess að við erum að taka hér stórar ákvarðanir sem varða mikla hagsmuni fyrir fjölskyldurnar í landinu og sérstaklega fyrir fólk sem á von á barni, það verður ekki aftur snúið og það þarf að gera sín plön o.s.frv. Það er að sjálfsögðu mjög gagnrýnisvert að vinnubrögðin séu svona og ég verð eiginlega að taka undir það með hv. þingmanni að það væri ekki vitlaust til að skapa einhvern frið um þetta mál að hugsanlega fallast einfaldlega á þessa breytingartillögu þingmannsins eða jafnvel að fresta gildistöku 16. gr. frumvarpsins til að fjalla betur um það og fara betur yfir hvaða áhrif þetta hefur og hvernig hægt er að koma betur til móts við þá hagsmunaaðila sem hér koma að málum.