Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 19:16:31 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[19:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi að ég gæti tekið undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni og hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni og sagt að ég legði til að dregin yrði til baka skerðing á fæðingarorlofi. Sem stjórnarþingmaður er ég ábyrg fyrir því að við náum niður mjög alvarlegum fjárlagahalla og get því ekki leyft mér þann munað, enda eru aðstæður í íslensku samfélagi með þeim hætti að við þurfum að gera fleira en gott þykir.

Ég ákvað að koma hingað upp, frú forseti, því hv. þm. Jón Gunnarsson sagði að jafnrétti yrði ekki náð með lögboði. Á sama tíma lofsyngur hann löggjöf um fæðingarorlof sem tæki til jafnréttis. Þar var með lagasetningu beitt pólitískum vilja til að ná fram jafnrétti. Hið sama á við um lög um kynjakvóta því eins og hv. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði áðan er útlit fyrir að konur séu hlutfallslega færri í stjórnum nýrra fyrirtækja. Það er ekkert að breytast á Íslandi með það. Ég held að dæmin sanni frá Reykjavíkurborg að þegar Reykjavíkurlistinn tók þar við völdum var það út af skýrum pólitískum vilja sem konum fjölgaði í valdastöðum hjá Reykjavíkurborg. Það var mjög til bóta því þar kom inn mjög margt hæfileikaríkt fólk með nútímalegar hugmyndir um stjórnhætti. Ég tel svo sannarlega, hv. þingmaður, að jafnrétti komi ekki af sjálfu sér. Til þess þarf skýran pólitískan vilja.