Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 19:18:46 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[19:18]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fél.- og trn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við í 2. minni hluta hræðumst það í umsögnum og nefndaráliti okkar hvaða áhrif þessar breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni geti haft á jafnréttismál. Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sem kallaði sig femínista áðan í ræðustól skilur ekki þennan grundvallarmun sem er á því að búa til frjóan jarðveg í samfélagi okkar með löggjöf til að hægt sé að skapa þá umgjörð um jafnrétti sem við viljum hafa, til að jafna tækifæri kynjanna til að skapa sér tækifæri hvort sem er á vinnumarkaði eða í félagslegu starfi eða hvað sem veldur. Það er grundvallaratriði að átta sig á því að með því að búa til stefnu og löggjöf sem jafnar möguleika kynjanna til þátttöku sköpum við jafnrétti en ekki með því að búa til löggjöf sem segir hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, ef hún vildi einhvern tímann stofna fyrirtæki á almennum markaði, ráða til sín fólk og skipa stjórn í þessu fyrirtæki, að hún mætti ekki skipa hana eingöngu konum af því að henni hugnaðist það betur og hún reiknaði með að það mundi auka árangur og velferð þess fyrirtækis. Mér finnst það algerlega röng nálgun. Það á að vera hennar ákvörðun hvernig hún skipar og rekur sitt fyrirtæki en það á ekki að gerast (Forseti hringir.) með lögboði.