Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 19:23:00 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[19:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fél.- og trn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Um margra ára skeið stóð ég í rekstri eigin fyrirtækis. Þegar starfsmenn voru þar sem flestir held ég að við höfum verið einhvers staðar á milli 20 og 25 talsins. Með mér störfuðu eingöngu konur fyrir utan tilfallandi sendiþjónustu bíla sem við keyptum en á launaskrá fyrirtækisins auk mín störfuðu eingöngu konur. Ég vildi hafa það þannig sem framkvæmdastjóri þess fyrirtækis vegna þess að það hentaði þeirri starfsemi langbest.

Ég hef líka verið í forustu fyrir ein öflugustu félagasamtök landsins um margra ára skeið. Ég hef starfað í björgunarsamtökunum hátt í 30 ár. Þegar ég gekk í þau og gekk í þá björgunarsveit þar sem ég byrjaði voru þar eingöngu karlar. Ég gekk í gegnum þá breytingu í þessum félagasamtökum að konur komu til starfa og konur eru þar starfandi í dag. Þrátt fyrir valdboð og þrátt fyrir þrýsting eru konur starfandi þar í stjórnunarstöðum, bæði á skrifstofu kerfisins og í félagslega kerfinu. Þær stýra björgunarsveitum, þær stýra deildum á skrifstofum félagsins, þær eru mjög virkar í öllu björgunarstarfi og hafa eflt starfsemi þessa félags til mikilla muna. Þetta var gert með því að hafa opna umræðu og þegar konur fóru að láta kveða að sér og vildu koma til starfa þá voru aðilar sem voru tilbúnir til að gera það. Félögin tóku ákvörðun um að opna einnig fyrir konum og það hefur bara verið til gæfu. Það gerðist ekki með lagaboði og ég er ekki viss um að sá árangur hefði náðst ef það hefði verið sett í lög félagsins að skipað (Forseti hringir.) skyldi í þessa stöðu samkvæmt lögum.