Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 20:29:08 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[20:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni góða og efnisríka ræðu að vanda. Ég fjalla nánar um það sem hann víkur að varðandi fæðingarorlofið í ræðu minni á eftir en vildi svara honum stuttlega hvað varðar lengingu á endurhæfingarlífeyri og breytingar á örorkumati.

Ég er alltaf að svara honum þessari sömu spurningu. Klukkan hætti ekki að ganga eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fór úr Stjórnarráðinu og það er rangt að ekkert sé gert með niðurstöðu nefndar sem var sett í að búa til nýtt starfshæfnismat. Við erum búin að fá forræði þess máls núna yfir í félagsmálaráðuneytið, eins og ég útskýrði fyrir hv. þingmanni við 1. umr. þessa máls, og við erum að undirbúa að hrinda því í framkvæmd eins fljótt og mögulegt er á næsta ári. Þess vegna er þessi lenging á tímanum sem við getum beitt endurhæfingarlífeyrinum afskaplega mikilvæg, líka út af því sem þingmaðurinn bendir réttilega á að við stöndum frammi fyrir hættu á að sá mikli fjöldi sem nú er orðinn langtímaatvinnulaus geti fest í örorku mjög fljótt.

Það er mjög mikilvægt að leggja áherslu á getu fólks til að vinna. Við munum hrinda þessu í framkvæmd. Ég sé engan tilgang í því í sjálfu sér að halda löngu nefndarstarfi áfram, það er búið að vinna grunninn að þessu verkefni en núna þarf aðgerða við. Við ætlum að fara í þær eins fljótt og mögulegt er á nýju ári og erum að búa í haginn með þessari lengingu á endurhæfingarlífeyrinum sem lögð er til í þessu frumvarpi.