Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 20:50:44 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[20:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að þetta eru vissulega sérkennilegir tímar. Það er auðveldara um að tala en í að komast að stjórna landinu á þessari stundu og auðveldara að tala um að skera niður en í að komast eins og hv. þingmaður stendur nú frammi fyrir sem formaður sinnar nefndar. Ég ítreka þó það sem ég sagði áðan að það er gríðarlega mikilvægt í niðurskurðinum að línur séu skýrar og augljósar, þannig að landsmönnum öllum sé ljóst að menn sitji við sama borð.

Ég vil líka nota tækifærið og fagna þeirri yfirlýsingu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur að þetta vinnulag sem hefur viðgengist í þessu máli, og reyndar fleirum hér í þinginu, eigi ekki að verða regla heldur undantekning. Ég fagna því.

Í þessu máli vil ég ítreka að þrátt fyrir að við höfum staðið í rökræðum í Icesave-málinu stóra hér í vetur eða fyrr í þessum mánuði er alveg ljóst að engu að síður var hægt að undirbúa önnur mál. Stjórnarandstaðan var fyllilega búin að bjóða upp á að taka það mál út af dagskrá til þess að koma öðrum mikilvægari málum að. Það var margítrekað hér í þinginu, að fresta umræðu um Icesave og taka önnur mikilvægari mál fram yfir, en á það gátu stjórnarflokkarnir því miður ekki fallist. Það er kannski þess vegna sem þessi fljótaskrift er orðin á hlutunum. Það er ekki til fyrirmyndar, frú forseti, og ég vonast til og veit eftir þessa ræðu hv. þingmanns að við komum til með að standa saman í að þetta verði ekki regla.