Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 21:19:39 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[21:19]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður verði að finna orðum sínum betri stað einhvers staðar í reynslu liðinna vikna og mánaða. Ég held ég hafi í upphafi nóvember rakið á fundi í hv. félags- og tryggingamálanefnd í smáatriðum þau efnisatriði sem við ætluðum að taka á í þessu frumvarpi og í frumvarpinu um atvinnuleysistryggingar. Ég hef um fátt annað talað á opinberum vettvangi á undanförnum mánuðum en brýnan vanda ungs atvinnulauss fólks. Ég hef rætt um þetta ítrekað við aðila vinnumarkaðarins. Það hafa allir vitað hvað til stóð í málefnum fæðingarorlofs.

Niðurstaða Alþýðusambandsins sem hv. þingmaður vitnar til er auðvitað eðlileg. Það er að tala fyrir félagsmenn sína og kallar eftir því að niðurskurður sé ekki meiri en 5% sem talað var um í velferðarmálum. En eins og ég rakti áðan, þetta er ekki gamaldags ríkisstjórn sem sker flatt niður, allt saman, sama hvort það er forgangsverkefni eða annað. Eins vænt og okkur þykir um fæðingarorlofið þá er þar því miður meiru eftir að slægjast núna við lækkandi laun almennt í samfélaginu heldur en í ýmsum öðrum framfærslukerfum sem undir félags- og tryggingamálaráðuneytið heyra. Það er í það minnsta afstaða mín. Og það má alveg gagnrýna mig fyrir þá forgangsröðun en það er forgangsröðun sem í því felst.

Alþýðusambandið segir réttilega að ekki sé búið að vinna neina rannsókn á því hvaða áhrif þetta hafi. Það gefst einfaldlega ekkert ráðrúm til að vinna þá rannsókn. Við verðum að taka mið af því sem fyrir liggur um reynslutölur síðustu mánaða og við verðum að taka upplýsta ákvörðun um hver er besta leiðin í málinu. Það gerði félags- og tryggingamálanefnd af miklum dug og á hrós skilið fyrir og þannig verðum við einfaldlega að vinna. Við getum ekki skotið okkur á bak við það að við getum ekki tekið á þessum málum. Við verðum að taka á þeim. Við verðum að binda saman fjárlög og axla þá ábyrgð.