Tekjuskattur

Fimmtudaginn 17. desember 2009, kl. 11:18:06 (0)


138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú langar mig aðeins til að gagnrýna þessa ríkisstjórn almennt. Hér er sífellt verið að setja ný og ný lög og gera lagabætur og þetta er annað málið í morgun sem hv. þingmaður talar um. Fyrst var það hæstv. félagsmálaráðherra sem talaði um að þær skattatillögur sem liggja fyrir þinginu væru bara hugsaðar til eins árs, umbylta skattkerfinu til eins árs, því að svo ætti að taka skattkerfið upp aftur á næsta ári og umbylta því aftur fyrir árið 2011, og hér kemur hv. þm. Magnús Orri Schram og segir að þetta sé aðeins byrjunarskrefið að lagasetningunni.

Ég hef oft talað um að hér þurfi að vanda lagasetningu, ekki að vera að slá hér málum fram í gríð og erg með þeim hugmyndum alltaf að í framtíðinni þurfi að laga frumvörpin, laga þau þegar þau eru orðin að lögum. Eins og ég hef sagt áður gerir Alþingi varla annað nú árið 2009 en að gera lagabætur. Þetta er mjög neikvætt.

Þegar þetta frumvarp var kynnt til sögunnar sló hæstv. fjármálaráðherra mjög um sig og taldi að þarna væru að koma inn miklir peningar frá ríkissjóði þar sem verið væri að veita skattafslátt til nýsköpunarfyrirtækja. Það er fjallað aðeins um það í greinargerðinni hvað þetta er hugsanlega. Því langar mig til að spyrja þingmanninn: Hví setur ríkisstjórnin það fram að ríkissjóður sé raunverulega að endurgreiða þessa peninga því að peningarnir eru í raun aldrei orðnir til? Þetta er um hreinan skattafslátt að ræða og því er hvorki hægt að gera ráð fyrir honum debet né kredit í ríkisreikningnum. Er ekki orðið tímabært að við tölum um þetta eins og þetta er? Þetta er skattafsláttur en ekki útlagður kostnaður ríkisins.