Viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi

Fimmtudaginn 17. desember 2009, kl. 14:31:57 (0)


138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

viðurkenning á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

309. mál
[14:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

Megintilgangurinn er að leiða í lög á Íslandi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Eins og heiti tilskipunarinnar gefur til kynna fjallar hún um hvernig staðið er að viðurkenningu á menntun til starfa þegar réttur til þess að gegna ákveðnu starfi er bundinn því að einstaklingur hafi aflað sér tiltekinnar menntunar á viðkomandi sviði. Þetta tengist fjórfrelsinu sem er ein af undirstöðum EES-samningsins og snýst um frjálsa för launafólks en til þess að þegnarnir fái notið frjálsrar farar í raun er brýnt að þeir fái jafnframt notið viðurkenningar á þeirri menntun og starfsréttindum sem þeir hafa öðlast í heimalandi sínu. Þetta á jafnt við um lækna, kennara eða iðnaðarmenn hvers kyns, um Íslendinga jafnt og ríkisborgara annarra ríkja á EES-svæðinu. Einnig er mikilvægt að skýr ákvæði gildi um málsmeðferð og að grundvallarviðmið öll séu skiljanleg svo unnt sé að hraða vinnslu mála er varða viðurkenningu og ekki verði óeðlileg töf á að aðilar geti hafið störf í gistiríki á grundvelli menntunar frá heimalandi.

Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum nr. 83/1993. Tilskipunin sem tekið hefur við felur ekki í sér grundvallarbreytingar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Réttur manna til viðurkenningar er hinn sami og áður en vonast er til að framkvæmdin verði einfaldari og skilvirkari, m.a. með nýjum ákvæðum um veitingu þjónustu og um samskiptakerfi stjórnvalda er annast viðurkenningarnar.

Ég tel kannski ekki mikla ástæðu til að fara mjög ítarlega yfir innihald tilskipunarinnar en á von á að það verði rætt í hv. menntamálanefnd, en hér er m.a. verið að sameina 15 fyrri tilskipanir um þessi efni, um viðurkenningu faglegrar menntunar, og það er ákvörðun innan Evrópusambandsins að sameina þessa tilskipun í eina, bæði tilskipanir almenna kerfisins og hinar svokölluðu geiratilskipanir sem tengjast ákveðnum starfsstéttum. Eina háskólastéttin sem stendur utan þessa kerfis nú eru lögmenn og hefur Evrópusambandið beint því til aðildarríkja að þau noti tækifærið og kanni hvort tök séu á að einfalda og skýra lagarammann um viðurkenningu starfsréttinda. Í meginatriðum er ekki verið að breyta tilhögun viðurkenningar prófskírteina sem neinu nemur frá því sem verið hefur samkvæmt eldra fyrirkomulagi. Öll meginskilyrði viðurkenningar og málsmeðferðar eru hin sömu og áður og áfram liggur kerfinu til grundvallar sérstök skilgreining á menntunarstigum eða þrepum.

Enn fremur er verið að taka upp reglur sem hafa orðið til með dómum Evrópudómstólsins í málum gegn aðildarríkjum ESB sem varðað hafa viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi svo sem tungumálakunnáttu. Þá er eitt nýmæli í tilskipuninni sem snýr að því að í 5. gr. segir að aðildarríkjum sé óheimilt að hefta frjálsa veitingu þjónustu með vísan til prófskírteina þegar aðili uppfyllir viss skilyrði. Hér er átt við það þegar sá sem veitir þjónustuna fer milli aðildarríkja og staldrar við í stutta stund og sú tímabundna veiting þjónustu er ekki skilgreind nánar. Hana verður að meta í hverju tilviki fyrir sig á grundvelli tímalengdar, tíðni, reglufestu og samfellu. Þegar aðili kemur til aðildarríkis á grundvelli þessa ákvæðis fer ekki fram sama skoðun á gögnum hans og þegar um búsetu er að ræða þar sem ekki er um eiginlega viðurkenningu að ræða. Afgreiðslan má taka einn mánuð og hafi aðili ekki fengið nein svör frá viðkomandi stjórnvöldum að þeim tíma liðnum hefur hann fulla heimild til að veita þá þjónustu sem hann hefur skráð sig til. Á móti kemur að ríki getur krafist þess að þjónustuaðili leggi fram ákveðin gögn en til þess að það geti gerst þarf að vera sérstaklega kveðið á um það í lögum. Langflest aðildarríki munu fara fram á yfirlýsingu af þessu tagi af hálfu þjónustuveitenda og munu einnig biðja um öll skjöl sem heimilt er samkvæmt tilskipuninni að fara fram á og nú er unnið að einsleitu yfirlýsingarformi er öll lönd geti notast við.

Samkvæmt 15. gr. geta fagsamtök innan Evrópu komið sér saman um svokölluð sameiginleg grunnskilyrði þar sem skilgreindar eru kröfur sem þarf að uppfylla til að aðilar geti öðlast viðurkenningu. Yrði slíku samstarfi komið á yrði ekki heimilt að beita uppbótarráðstöfunum heldur er um gagnkvæma viðurkenningu að ræða líka þeirri sem þegar tíðkast fyrir sumar heilbrigðisgreinar.

Lögbær yfirvöld munu koma sér upp nánara samstarfi um viðurkenningu prófskírteina en verið hefur til þessa og ætti það að gera þetta kerfi skilvirkara en verið hefur.

Aðildarríki munu þurfa að skipa samráðsaðila fyrir tilskipunina, sem hefur svipað hlutverk og fyrri samráðsaðilar, en til þessa hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið gegnt þessu hlutverki. Hlutverk þeirra er að stuðla að samræmdri framkvæmd tilskipunarinnar og safna upplýsingum um framkvæmdina, svo sem um skilyrði fyrir aðgengi að tilteknum störfum.

Þá þurfa aðildarríki að koma á laggirnar tengilið í viðkomandi landi sem gegnir upplýsingaskyldu gagnvart þegnunum um viðurkenningu prófskírteina og aðstoðar þá við að nýta sér þann rétt sem þeir eiga samkvæmt tilskipuninni.

Loks mun starfa sérstök nefnd um viðurkenningu prófskírteina, skipuð fulltrúum aðildarríkjanna, sem aðstoða mun framkvæmdastjórnina við ýmis mál er upp kunna að koma og tengjast þessum málaflokki.

Í fyrirliggjandi frumvarpi er þó ekki eingöngu horft til viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi til starfa á EES-svæðinu heldur er einnig vikið að samningum sem Ísland hefur gert við Norðurlöndin og við Færeyjar auk þess sem kveðið er á um hvernig farið skuli með umsóknir sem berast frá þegnum ríkja sem standa utan EES-samstarfsins en mikilvægt er að réttarstaða þess stóra hóps sem þaðan kemur sé ljós.

Samkvæmt frumvarpinu er almennt gert ráð fyrir að umsóknir um viðurkenningu faglegrar menntunar og hæfis séu sendar mennta- og menningarmálaráðuneytinu nema öðru stjórnvaldi hafi með lögum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum verið falin úrlausn málsins.

Samkvæmt gildandi lögum hefur hvert fagráðuneyti um sig með höndum viðurkenningu á menntun til starfsréttinda hér á landi en í lögum nr. 83/1993 segir:

„Þau stjórnvöld, sem fara með málefni er varða hlutaðeigandi starf, skulu sjá um að skilyrði þau sem greinir í 2. gr. til að gegna starfinu hafi verið uppfyllt.“

Þannig til að mynda annast landlæknisembættið viðurkenningu á menntun heilbrigðisstétta og útgáfu leyfisbréfa fyrir hönd heilbrigðisráðuneytis. Sýslumenn annast útgáfu leyfa til starfa í löggiltum iðngreinum fyrir hönd iðnaðarráðuneytis á grundvelli umsagnar mennta- og menningarmálaráðuneytis um menntun viðkomandi.

Löng hefð er fyrir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi með höndum afgreiðslu umsókna í löggiltum iðngreinum um viðurkenningu menntunar og er það vegna þess að eitt meginskilyrðið fyrir iðkun löggiltrar iðnar á Íslandi er að umsækjandi um viðurkenningu uppfylli skilyrði um menntun til að mega starfa í tiltekinni iðn. Mennta- og menningarmálaráðuneytið gefur út námskrár í löggiltum iðngreinum og getur því talist faglega bært um að veita umsögn um gögn er umsækjendur leggja fram með umsóknum sínum. Slík afgreiðsla nær þó eingöngu til þess hvort aðili uppfyllir skilyrði um menntun til að starfa á tilteknu sviði en henni lýkur ekki með útgáfu leyfisbréfs.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir frumvarpi þessu og legg til að því verði vísað til hv. menntamálanefndar að lokinni 1. umr.