Tekjuskattur o.fl.

Fimmtudaginn 17. desember 2009, kl. 16:56:22 (0)


138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[16:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er tími til breytinga og hér er verið að gera mikilvægar breytingar til einföldunar í rekstri ríkisins til að bæta og efla þjónustu, til að hagræða í rekstrinum og spara til lengri tíma. Það er mikilvægt að við grípum til slíkra aðgerða á þessum tímum. Unnið hefur verið vikum saman að því að undirbúa þessar breytingar. Hér verða hygg ég hátt í 300 manns á fundum á morgun vegna þessa undirbúnings.

Við höfum í umfjöllun okkar fengið á fund okkar fulltrúa stéttarfélaganna sem að málinu koma sem hafa staðfest að við þá er haft gott samráð og að þeir hafa gott traust á þeim yfirmönnum sem stjórna þessu ferli.

Ég held að það verði skattþegnum í landinu sannarlega til bóta að einfalda þetta kerfi og nýta betur þá þekkingu og reynslu sem við eigum í skattumdæmum.