Vitamál

Föstudaginn 18. desember 2009, kl. 20:53:11 (0)


138. löggjafarþing — 52. fundur,  18. des. 2009.

vitamál.

74. mál
[20:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um vitamál sem felast í því að verið er að hækka vitagjöldin, annars vegar úr 78 kr. í 156 kr. miðað við brúttótonn og það er 100% hækkun. Fram kom í ræðu síðasta ræðumanns að það gerðar voru mjög alvarlegar athugasemdir við þetta og m.a. þær að þetta mundi hugsanlega geta dregið úr komu erlendra skemmtiferðaskipa hingað til lands, en erlend skip greiða um 85% af vitagjaldinu, af heildargjaldinu. Einnig er lagt til í frumvarpinu að nýta megi þessa hækkun eða þennan gjaldstofn til annarra verka innan stofnunarinnar.

Það kom fram á fundum nefndarinnar að menn töldu að ef farið væri svona bratt í að hækka gjaldið gæti það hugsanlega haft þær afleiðingar að komum skemmtiferðaskipa mundi fækka og þeir bentu líka á að sum skipin koma einungis einu sinni ári sem þýðir að það er þá öðruvísi hjá þeim sem sigla kannski allan ársins hring.

Í b-lið er gert ráð fyrir því að sú fjárhæð sem þar stendur, sem er 3.500, fari upp í 4.900 kr. og sú hækkun mun koma nánast eingöngu niður á smábátaflotanum. Landssamband smábátaeigenda gerði engar athugasemdir við þessa hækkun og taldi að verið væri að færa þetta til þess horfs sem er víða annars staðar. Reyndar er upphafið að vandamálinu það að þessi gjaldskrá hefur ekki hækkað síðan 2002 og verið er að leiðrétta það með breytingunum hér og það er líka tekið fram í nefndarálitinu að færa þurfi upp gjaldskrárnar reglulega þannig að menn lendi ekki í svona stórum stökkum, og þó svo að það séu ákveðin rök fyrir því að gera það vegna áhrifa gengisins er ekki skynsamlegt að gera það með þessum hætti.

Að lokum vildi ég segja það, virðulegi forseti, af því að lagt er til af hálfu nefndarinnar að hækkunin verði 60% og að í stað fjárhæðarinnar 156,50 komi 125,12 sem þýðir ákveðinn tekjumissi fyrir ríkissjóð, að þá þarf að sjálfsögðu að leiðrétta það í fjárlagafrumvarpinu.