138. löggjafarþing — 60. fundur,  22. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[11:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um tímabundna breytingu á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna á árunum 2010, 2011 og 2012. Hv. iðnaðarnefnd hefur fjallað um málið. Með þessu frumvarpi er lagt til að hæstv. iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að gera, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, viðauka við aðalsamninga eða fjárfestingarsamninga við járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, álverið á Grundartanga, álverið í Reyðarfirði og álverið í Straumsvík um fyrirframgreiðslu upp í álagningu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum á næstu þremur árum, eftir því sem við á.

Fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra annars vegar og Samtök atvinnulífsins og stórnotendur raforku hins vegar hafa með sameiginlegri yfirlýsingu orðið sammála um þessar ráðstafanir sem hafa það að markmiði að stuðla að aukinni tekjuöflun ríkisins á árunum 2010, 2011 og 2012 ásamt því að örva fjárfestingar hér á landi í því skyni að stuðla að atvinnusköpun og bættum hag þjóðarbúsins. En vegna mikils samdráttar í efnahagslífinu og erfiðrar stöðu ríkissjóðs í kjölfar hans hefur það orðið að samkomulagi við nokkra stærstu notendur raforku í landinu að þeir greiði fyrir fram árlega samtals 1.200 millj. kr. á árunum 2010, 2011 og 2012 upp í væntanlega álagningu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum á árunum 2013–2018. Af ástæðum er varða útreikning skiptist fyrirframgreiðslan í hlutfalli við raforkunotkun. Hér er um að ræða samkomulag um það hvernig stórfyrirtækin á Íslandi leggja sitt af mörkum á þeim tímum sem verið er að endurreisa íslenskt samfélag. Þau taka höndum saman við ríkisstjórn Íslands og trúa því að við komumst upp úr öldudalnum sem bankahrunið kom okkur í og framtíð Íslands og fjölbreytts íslensks atvinnulífs sé björt og stöðug. Iðnaðarnefnd leggur því til að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt.