138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrst dagskráin á þinginu á að fara fram samkvæmt samkomulagi sem gjarnan er vísað til og ekki liggur fyrir opinberlega tel ég mikilvægt að þeir sem að samkomulaginu stóðu tjái sig um það ef þeir telja rangt með farið. Mér finnst menn hafa farið býsna frjálslega með þetta samkomulag. Það snerist auðvitað um lok þingstarfanna í heild sinni, allra þeirra mála í heild sinni sem þá voru óafgreidd og við lukum fyrir jól, ekki satt? Það var hluti af samkomulaginu að Icesave-málið fengi tiltekna meðferð í fjárlaganefnd. Menn geta spurt sig hvort það sé eðlileg meðferð í fjárlaganefnd að taka málið þar út áður en þau gögn sem um hafði verið samið voru komin til nefndarinnar eins og t.d. áhættumatið frá IFS Greiningu. Að mínu áliti er það ekki í samræmi við samkomulagið að málið sé rifið út áður en þau gögn sem um hafði verið samið um að kæmu til nefndarinnar höfðu borist henni. Að öðru leyti var ekki um annað rætt en það að Icesave-málið (Forseti hringir.) kæmi á dagskrá milli jóla og nýárs og ég tel mikilvægt að forseti eigi fundi með þingflokksformönnum um það hvernig við ætlum að haga dagskránni hér næstu daga.