138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:44]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ljóst að gert var nokkuð víðtækt samkomulag um þinghaldið milli jóla og nýárs og meðferð Icesave-málsins í nefndunum. Það er eitt. Hitt er svo um tímalengd þingfundar í dag o.s.frv. Ég held að það sé alveg einboðið að við greiðum atkvæði um það hvort forseti hafi heimild til að halda kvöldfund eða ekki svo við séum ekki að eyða dýrmætum tíma þingsins í að deila um hvort það hafi nákvæmlega verið rætt fyrir jól eða ekki hvað við yrðum lengi fram eftir þessum degi. Það er sjálfsagt mál að forseti láti fara fram atkvæðagreiðslu um það, og að henni lokinni fundum við þingflokksformenn með forseta og förum yfir smáatriðin í þinghaldinu og hvort fundur standi fram á kvöld eða fram að miðnætti og hvenær fundur verði í fyrramálið og allt það. Það er algjör óþarfi að deila um það úr ræðustól og rífast um önnur eins smáatriði og það. Við höldum fund um það og greiðum atkvæði um það hvort forseti hafi heimild til þess en önnur atriði samkomulagsins standa að sjálfsögðu.