138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég endurtek það sem ég sagði áðan hreinskilnislega, að það lá ekki fyrir neitt formlegt samkomulag af hálfu stjórnarandstöðunnar um það með hvaða hætti fundum yrði hér háttað. Hins vegar liggur líka alveg ljóst fyrir að ekki er hægt að segja að stjórnarliðið komi með einhverjum hætti aftan að stjórnarandstöðunni, hvorki varðandi afgreiðslu málsins út úr nefndinni né vilja stjórnarliðsins (Gripið fram í.) til að ljúka þessu máli með þeim leiðum sem við þurfum varðandi fundahald. Það kom algjörlega skýrt fram, bæði af minni hálfu og hæstv. fjármálaráðherra þegar við áttum viðræður við forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna, í fyrsta lagi með hvaða hætti við hygðumst reyna að ljúka málinu í nefndinni og í öðru lagi með hvaða hætti við hygðumst reyna að ljúka því líka á þinginu.

Við höfum ekkert verið að fella neina fjöður yfir það að við hyggjumst gera það sem hægt er til að tryggja að málinu ljúki fyrir áramót og við sögðum hreinskilnislega að við mundum (Forseti hringir.) leggja áherslu á langa fundi ef þess væri þörf. Það er ekki hægt að segja (Forseti hringir.) að við séum að koma aftan að neinum varðandi þau áform stjórnarliðsins.