138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:30]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, fór hér yfir hagsmuni einhverra annarra en Íslendinga. Það var algjörlega skautað fram hjá staðreyndum málsins. Mig langar til að nefna nokkrar þeirra. 100 milljónir í dag munu falla á íslensku þjóðina næstu sjö árin í hinu svokallaða skjóli. Það eru t.d. fjármunir sem hefðu getað nýst í að borga vasapeninga aldraðra sem ríkisstjórnin var að skera niður, en það eru bara sjö klukkustunda vextir. (Gripið fram í.) Það var algjörlega skautað fram hjá því að 45 milljarðar falla á íslenska ríkið á ári. Það var algjörlega skautað fram hjá því að skuldastaða þjóðarbúsins er um 320% af vergri þjóðarframleiðslu samkvæmt áliti Seðlabankans.

Hv. formaður fjárlaganefndar talaði fyrir því þegar lögin voru staðfest hér í haust, lög nr. 96/2009, (Forseti hringir.) að það væri nægilegt að setja það ákvæði að ef skuldastaðan færi yfir 240% félli ríkisábyrgðin niður. (Forseti hringir.) Er formaður fjárlaganefndar enn sömu skoðunar?