138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það vekur athygli þegar hv. þm. Höskuldur Þórhallsson talar um staðreyndir og hvernig farið er með þær eða að hér sé verið að tala um hagsmuni annarra. Það sem ég hefði viljað heyra frá hv. þingmanni og vænti mikils af ræðu hans síðar er hvað ætlar hv. þingmaður að stinga upp á að gert verði. Ætlar hann að standa við skuldbindingarnar sem teknar voru í upphafi? Eða ætlar hann að láta í veðri vaka eins og hann hefur gert hingað til að hægt sé að hlaupa frá þessu öllu og ekkert gerist? (BirgJ: Það er enginn að tala …) Ég bíð spenntur eftir því að heyra hv. þingmann ræða um það af mikilli málafylgju að Icesave-skuldbindingin sé sennilega fjórða eða fimmta stærsta skuldin. Það eru þrjár til fjórar ofar á listanum (Gripið fram í.) og það verður spennandi að heyra hvernig um þær verður rætt.

Við gerum okkur öll grein fyrir að þetta er gríðarleg skuldbinding og hún er erfið að fara í gegnum. Allar þær upplýsingar sem hv. þingmaður bað um liggja fyrir í gögnum málsins, hafa komið fram í fyrri umræðu, hafa verið ræddar ítarlega í fjárlaganefnd og engin ástæða er til að eyða tímanum í ræðustól til að endurtaka það enn einu sinni. Hv. þingmaður á að hafa lesið þetta (Forseti hringir.) þó að stundum megi efast um það.