138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það væri þörf á því að eiga málefnalega umræðu um þetta mál og það væri tilbreyting frá því sem hér hefur gerst við 2. umr. ef við fengjum fyrst og fremst málefnalega umræðu og annað en umræðu um fundarstjórn forseta eða annað sem skiptir engu máli fyrir þetta mál. Það skiptir nefnilega mjög miklu máli að við reynum að upplýsa málið gagnvart almenningi og eitt af því sem þarf einmitt að upplýsa er hvað gerist ef við gerum ekki neitt. (BirgJ: Það er enginn að tala um að gera ekki neitt.) Það er það sem skiptir mjög miklu máli. Nei, nákvæmlega, hér kallar hv. þm. Birgitta Jónsdóttir fram í: Það er enginn að tala um að gera ekki neitt. Það eru mikilvægustu upplýsingarnar í málinu, (Gripið fram í: Það er …) að við erum að velja leiðir, en við erum ekki að velja það að henda málinu út af borðinu. Það skiptir mjög miklu máli.

Varðandi Brussel-viðmiðin held ég að við getum ekki sagt að málið sé byggt á neinum misskilningi. Það var valið upphaflega af fyrrverandi ríkisstjórnum sem m.a. ákváðu að fara í samningaviðræður og leysa málið með samningum. Brussel-viðmiðin áttu að vera bakhjarlinn, þ.e. samkomulag við Evrópuþjóðir og eiga þær að bakhjarli. (Forseti hringir.) Það hefur verið tryggt að hluta til með því bréfi sem fjármálaráðherrar (Forseti hringir.) landanna hafa skrifað undir og þeim atriðum sem hafa komist inn í samningana.