138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé oftúlkun að segja að þeir samningar sem gerðir voru og undirskrifaðir í tvígang, m.a. samningurinn við Hollendinga með 6,7% vöxtum og öllum þeim ákvæðum, hafi engin áhrif haft. Því miður var þessu beitt á samninganefndina allan tímann samkvæmt upplýsingum sem hafa komið fram, m.a. í viðræðum í fjárlaganefnd. Það kom aftur og aftur upp á borðið og þegar menn töldu sig vera að taka tillit til þessara einstöku aðstæðna á Íslandi átti það einmitt að gerast með því að fresta því hvenær greiðslur hæfust og endurskoða hversu háar upphæðir yrðu greiddar og hvaða vextir yrðu greiddir. Þannig töldu menn sig vera að koma til móts við Brussel-viðmiðin.

Það er aftur á móti mjög athyglisvert og einmitt eitt af því sem kom fram í þessum álitum, sama og við höfum rætt um áður, að einmitt þau atriði sem ekki eru í lánasamningunum eru ekki sjálfkrafa efni í dómstólameðferð ef til dómsmála kemur. Því höfum við haldið fram allan tímann. Það er einmitt styrkurinn að sumu leyti við þetta nýjasta frumvarp, að þar er búið að taka fyrirvarana að verulegu leyti og flytja inn í lánasamningana (VigH: Rangt.) og þar með tryggja að þeir fái umfjöllun sem slíkir ef kemur til dóms. (Forseti hringir.) Annað er ekki víst að komi fyrir dóm.