138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ræða hv. þingmanns gefur í sjálfu sér ekkert tilefni til þess að vera að svara, þetta eru hennar fullyrðingar og hennar aðferð til að (VigH: Staðreyndir.) lýsa málinu. Já, það verða gjarnan staðreyndir þegar maður sjálfur talar en lygi þegar aðrir tala, að mati hv. þingmanns.

Það sem ég get aftur á móti ekki stillt mig um er að mótmæla því að allir sem hafa unnið að þessu máli og hafa unnið heilt að því séu þar með vanhæfir til að fjalla um málið. (VigH: Sem álitsgjafar.) Það finnst mér með ólíkindum. Skyldu þeir hafa keypt álit? Þetta hefur áður komið fram frá hv. þm. Birgi Ármannssyni sem segir að lögfræðiálit sé pantað. Þar talar lögfræðingur sem þekkir væntanlega til þess hvernig slíkt gengur fyrir sig. Mér finnst fyrir neðan virðingu okkar að tala svona um fólk. Fólk vinnur hér vinnu sína af heiðarleika, (Gripið fram í.) vinnur til þess að koma málum áfram, vinnur að lausnum. Við völdum að tala við Mishcon de Reya sem hafði komið að málinu áður. Voru þeir þá vanhæfir? (Gripið fram í: Þú …) Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur komið að málinu áður. Er hann þá vanhæfur? Fyrir mér er það ekki þannig. (VigH: Hvers konar málflutningur er þetta?) Þetta hefur verið umræðan, að hér sé fólk meira og minna vanhæft af því að það hafi (Forseti hringir.) lýst skoðun sinni áður. Ég tek bara hálfgert undir það.