138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:13]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Svo ég haldi áfram með svar við þessu andsvari var varðandi skilanefnd Landsbankans því alltaf haldið fram að gögnin um eignir Landsbankans væru það mikil að vöxtum að einfaldlega væri ekki hægt að afhenda þau, nefndarmenn mundu ekki skilja þau og þingmenn mundu ekki skilja þau. Við fengum einhvers konar sundurliðað álit sem náði mjög skammt og upplýsti í rauninni mjög lítið. Eins og fram hefur komið er hreinlega með ólíkindum að því sé haldið fram að allt upp í 90% af þessum eignum muni innheimtast (BirgJ: 95.) eða 95% eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir segir. Engu að síður hafa Bretar og Hollendingar á öllum stigum málsins einfaldlega hafnað því alfarið að fá þessar eigur í stað þess að fá lánaskuldbindingu af hálfu Íslendinga. Hér er um mjög gruggugt atriði að ræða sem aldrei hefur fengist upplýst. Þótt ótrúlegt megi virðast að það hafi ekki fengist upplýst (Forseti hringir.) fékkst það ekki.