138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nánast öll rök stjórnarliða fyrir þessu frumvarpi eru fallin, hins vegar eru aftur farin að skjóta upp kollinum gömul rök hjá fólki sem að því er virðist hefur verið utan gátta í umræðunni. Jafnvel er því haldið fram að samþykki þessa frumvarps, Icesave-samninganna, geti leitt til styrkingar á krónunni og að fyrr verði hægt að afnema gjaldeyrishöft. Nú hef ég bara orð fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir þeirri fullyrðingu að skuldir sem þeir höfðu áður sagt óviðráðanlegar yrðu nú viðráðanlegar — með samþykki Icesave. Rökstuðningurinn var mjög einfaldur: Ja, þið getið framlengt gjaldeyrishöftin, við gerum ráð fyrir að þau muni vara hér lengur, ekki skemur, lengur en áður var áætlað, og krónan mun haldast veik a.m.k. 10 ár. Svo er ekki vitað hvað verður eftir það.

Það voru forsendur þess að hægt yrði að standa undir þessum skuldum. Þykir ekki hv. þingmanni svolítið undarlegt að heyra enn koma fram rök um að samþykki Icesave-samninganna geti styrkt gengi krónunnar? (Forseti hringir.)