138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var afar sérstakt að heyra þá upptalningu á skuldum sem hv. þingmaður lýsti hér. Allar þessar skuldir þjóðarinnar komu á vakt Samfylkingarinnar, ekki rétt? Jú, það er nefnilega staðreynd málsins. Ég er ekki að gera lítið úr þeim skuldum sem blasa við íslensku þjóðinni en Icesave-skuldin er einfaldlega skuld sem íslenska þjóðin á ekki að greiða, 45 milljarðar á ári. Og menn tala um að áhættan á greiðslufalli þjóðarinnar aukist ef við ýtum á nei-takkann. Hvergi í gögnum málsins er að finna rökstuðning fyrir þeirri fullyrðingu, hvergi nokkurs staðar, og þó hef ég kallað eftir rökstuðningi frá einhverjum, frá einhverjum sérfræðingi um að svo sé. Aldrei nokkurn tímann hefur neinn komið og sagt fjárlaganefnd hvað það sé sem við eigum að varast.

Varðandi (Forseti hringir.) skuldastöðu þjóðarbúsins, það kom mat á stöðu þjóðarbúsins um daginn og það var jákvætt. Það var fullyrt (Forseti hringir.) að það ætti ekki að koma fyrr en Icesave væri samþykkt en samt er það komið, BBB-.

(Forseti (SVÓ): Forseti áminnir enn og aftur þingmenn um að halda tímatakmörk í andsvörum.)