138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér fannst hún full af kjarki og hugdirfð. Mér fannst sem það þyrfti mikinn vaskleika til þess að segja að þetta frumvarp væri algjörlega óásættanlegt og þeir sem hefðu eða vildu samþykkja það væru í reynd að leggjast flatir fyrir erlendu valdi, þegar horft er til þess að hv. þingmaður er talsmaður flokks sem gekk frá samningsdrögum upp á miklu, miklu verri kjör. Það er einmitt sá vítahringur sem minnst var á áðan sem síðari ríkisstjórnir þurftu að reyna að draga Ísland út úr.

Hv. þingmaður fjallaði mikið um Mishcon-skýrsluna og fór vel (Gripið fram í.) og málefnalega yfir hana. En gleymdi hann ekki einhverju? Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað segir Mishcon de Reya-skýrslan um þá áhættu sem felst í að gera ekki samninginn?