138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra ómakið. Við erum báðir berjatínslumenn og sennilega kemur krafturinn og dirfskan þaðan. Ég vænti þess að hann sé með þeim sama hætti innréttaður.

Ég er ekki að gleyma nokkrum sköpuðum hlut. Ég fór mjög málefnalega yfir þau atriði sem koma fram í áliti Mishcon de Reya. Það eru bæði kostir og gallar við umsögnina sem þar kemur fram. Ég heyri aftur á móti að hæstv. utanríkisráðherra er búinn að gleyma yfirlýsingum fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, mjög afdráttarlausum yfirlýsingum um að núverandi stjórnvöld væru búin að vera óbundin frá 1. febrúar af gjörðum fyrri ríkisstjórnar. Er hæstv. utanríkisráðherra að segja það og upplýsa hér með að hann sé ósammála fyrrum formanni sínum? Á hvaða grunni er hann ósammála þeim skilningi sem kemur fram mjög afdráttarlaust (Forseti hringir.) hjá fyrrverandi utanríkisráðherra?