138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur komið fram í enskum rannsóknum að þeir sem borða daglegan skammt af bláberjum, að vísu ekki úr Böggvisstaðafjalli, hafa betra minni en aðrir. (Gripið fram í.) Mér sýnist sem hv. þingmaður hafi ekki borðað nóg af berjunum vegna þess að hann gleymdi alveg að svara spurningunum.

Spurningin var þessi: Hvað segir Mishcon de Reya um áhættuna sem felst í því að samþykkja ekki samninginn? Það getur hv. þingmaður lesið á blaðsíðu 66. Mishcon de Reya segir að það gæti leitt til þess sem þeir kalla „financial ramifications“ eða sem sagt dregið mjög alvarlegan fjárhagslegan slóða. Þeir tala um að það gæti leitt til þess að niðurstaðan, t.d. fyrir dómi, yrði að við þyrftum hugsanlega að borga allar kröfur Breta, þ.e. það gæti bætt við 600–700 milljörðum. (Gripið fram í.) Það er áhættan sem formaður Sjálfstæðisflokksins núverandi sagði í flottri ræðu 5. desember að hann vildi ekki taka. (Gripið fram í.) og þetta er það (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður gleymdi að taka fram í annars góðri yfirferð yfir Mishcon de Reya.