138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:34]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla fyrst að svara fyrirspurn sem ég komst ekki í áðan, þ.e. hvort ég teldi eðlilegt að maður nefndur Jón Sigurðsson hefði verið skipaður stjórnarformaður Íslandsbanka. Nú veit ég ekki til þess að það hafi komið í hlut Alþingis að skipa nefndan mann sem stjórnarformann Íslandsbanka, ég veit ekki til þess að það hafi verið gert, eða hvort það (Gripið fram í.) kom hér inn í þingflokka eða ríkisstjórn. (Gripið fram í: Það var ekki spurt um það.) Þess vegna get ég ekki svarað því hvað mér finnist eðlilegt, það er ekki á okkar verksviði. Það er ekki á verksviði stjórnmálaflokkanna. Það er ekki á verksviði ríkisstjórnarinnar. Það er ekki á verksviði Alþingis. Það verður að spyrja einhverja aðra að því hvað mönnum finnist eðlilegt.

Varðandi samningana hins vegar, þá taldi ég og tel enn að við hefðum verið betur sett með að afgreiða þá fyrr í sumar, því sá dráttur sem hefur orðið síðan þá hefur orðið þjóðinni til skaða, ekki bara efnahagslega heldur samfélagslega, því hér hefur verið alið á því að um einhvern valkost sé að ræða sem fólk geti hreinlega (Forseti hringir.) hafnað eða ýtt frá sér, eitthvað sem muni gufa upp og hverfa, en svo er ekki.