138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hreint með ólíkindum að hlusta á málflutning hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, sérstaklega þegar hann talar um það samkomulag sem átti að hafa verið búið að gera hér og öll gögn málsins eiga að styðja. Hvað segir hv. þingmaður þá um minnisblað Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur? Ég tek sérstaklega fram að hún er ekki sjálfstæðismaður, þannig að þingmaðurinn þarf ekki að hártoga það. Í minnisblaði til utanríkismálanefndar rekur hún ferlið varðandi umsömdu viðmiðin og segir svo, með leyfi forseta:

„Þar með var samkomulagið við Hollendinga frá 11. október úr sögunni.“

Hún rekur það vel að þarna hafi málið verið núllstillt, þannig að 1. febrúar þegar þessi ríkisstjórn eða forveri hennar tók við, hafi ríkisstjórnin haft algjörlega hreinan skjöld. Hvað finnst þingmanninum um þessi orð? Hreint borð frekar en hreinan skjöld?

Síðan varðandi það sem hv. þingmaður sagði hér um Jón Sigurðsson og það að hann hafi ekki vitað hver skipaði hann sem formann bankaráðs, þá leyfi ég mér að spyrja þingmanninn: Getur verið að (Forseti hringir.) samkomulag sé á milli hluthafa bankans um að skipa stjórnarformann? Og ég spyr: (Forseti hringir.) Hvaða hæstv. fjármálaráðherra fer með hlut ríkisins í því ágæta bankaráði og skyldi þetta hafa verið gert með samkomulagi við hann?