138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:42]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Sjálfstæðismönnum er í mun að reyna að halda því á lofti að ekkert samkomulag hafi verið gert og ekki hafi verið unnið að neinum drögum um samninga síðasta haust. Hvað voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins þá að gera? Var staðan virkilega þannig að menn höfðu ekki verið að gera neitt þegar sú stjórn hrökklaðist frá, var svæld út með pottum og pönnum? Voru menn ekki að vinna að lausn þessa máls? Hver var staðan? Héngu þeir bara heima og neituðu að horfast í augu við staðreyndir? Auðvitað ekki. Í gögnum málsins liggur fyrir hvað menn voru að gera. Þeir voru að reyna að finna lausn á málinu, auðvitað af bestu vitund og bestu getu. Það þarf ekkert að reyna að fela það.

Varðandi títtnefndan Jón Sigurðsson, þá hef ég ekki hugmynd um hver skipaði hann. Ég hef ekki hugmynd um hvort eitthvert samkomulag var þar á milli, ég bara átta mig ekki á því hvað það kemur Alþingi við í raun og veru. Hverjir eiga þennan banka? (Gripið fram í.) Kannski hv. þingmaður ætti að beina spurningu sinni til meirihlutaeigenda bankanna hvernig stóð á því að þeir völdu hann sem stjórnarformann í bankann. (Forseti hringir.)