138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:43]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Ég vil ítreka það sem ég sagði hér áðan, frú forseti, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, er ekki sjálfstæðismaður og það eru ekki sjálfstæðismenn sem halda þessu fram. Af hverju ætti fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar að segja það sem hún sagði um að títtnefnt samkomulag við Hollendinga hefði verið úr sögunni ef svo var ekki? Af hverju ætti fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar (Gripið fram í.) að setja þessa setningu í minnisblað (Gripið fram í.) til utanríkisráðherra? (Gripið fram í.) Af hverju ætti hún að gera það? Ég veit ekki til þess að hún hafi nokkrum skyldum við Sjálfstæðisflokkinn að gegna. Það er fullkomlega fáránlegt að halda því fram að þetta sé eitthvert orðagjálfur sjálfstæðismanna.

Varðandi það hvort menn hafi ekki verið að vinna. Jú, að sjálfsögðu. Þess vegna var ekki búið að skrifa undir samninga vegna þess að menn tóku þingsályktun Alþingis alvarlega. Þar stóð skýrum stöfum að menn ætluðu ekki (Forseti hringir.) að skrifa undir hvað sem er, sem var nákvæmlega það sem samninganefnd Vinstri grænna og Samfylkingarinnar gerði. Það var (Forseti hringir.) sú samninganefnd sem skrifaði undir og engin önnur.