138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:44]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að minna á það hér hverjir gengu frá samningum, hverjir það voru sem höfðu dug í sér til að ganga frá samningum þegar aðrir hrökkluðust frá því. (Gripið fram í: Dug?)

Málið úr sögunni? Halda þingmenn virkilega, virðulegi forseti, að menn geti valið hvaða skuldir þeir ætli að greiða og hvaða skuldir þeir ætli ekki að greiða, henda þeim bara út í buskann? Halda þingmenn að það sé einhliða yfirlýsing Alþingis hvenær málið er úr sögunni og hvenær málið er inni á borði? Í öllum samningaviðræðunum hefur komið í ljós, alveg þar til samningarnir voru undirritaðir 5. júní, þessi mara, þessi skjöl, þessi drög sem voru undirrituð síðasta haust um hugsanlegt samkomulag milli landanna. Þau svifu yfir samningamönnum alveg fram á síðasta dag og var ávallt hampað af viðsemjendum okkar vegna þess að það er ekki (Gripið fram í.) þannig að þingmenn geti í samningaviðræðum við aðra ákveðið einhliða hvenær mál eru úr sögunni og hvenær ekki. Það er ekki svo einfalt.