138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:50]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað tel ég að mark sé takandi á öllum þeim gögnum sem hafa komið fyrir fjárlaganefnd Alþingis og fastanefnd Alþingis í þessu máli. Þau gögn eiga allir þingmenn að lesa og kynna sér og byggja málflutning sinn á þeim en ekki því sem ekki er þar.

Það sem hefur komið fram í þessu máli að undanförnu — fyrst hv. þingmaður spurði að því í fyrra andsvari hvort ég taki mark á því sem kom frá IFS Greiningu á áhættumati samninganna tek ég að sjálfsögðu mark á því líka. Það er þó ekki hinn endanlegi dómur en ágæt viðbót við allt annað sem hefur komið til fjárlaganefndar, hvort sem er frá Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu, Hagfræðistofnun Íslands eða öllum öðrum sem hafa lagt í púkkið til að hjálpa okkur að taka afstöðu í þessu máli og leggja okkar eigið mat á þau gögn sem hér hafa komið fram. Það hef ég gert, hv. þingmaður.