138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:51]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú þetta flókna og erfiða mál og loks er komið að því að við getum reynt að leiða það til lykta. Þetta er erfitt og flókið mál og það hefur verið okkur snúið. Rétt er áður en lengra er haldið að rifja upp ábyrgðina á þessu máli, hvers vegna við erum í þeirri stöðu að vera yfir höfuð að ræða að axla ábyrgð vegna gönuhlaups landsbankamanna í útlöndum.

Ábyrgðin liggur auðvitað á herðum forsvarsmanna bankans sjálfs og verður aldrei af þeim tekin, að efna til þessarar útrásar með jafnilla búið skip og þeir raunverulega höfðu yfir að ráða. Við þurfum líka að horfa til þess hvað í okkar regluumhverfi og eftirlitskerfi hefði mátt vera betur úr garði gert til að stemma þessa á að ósi. Það er rangt sem ítrekað hefur verið haldið fram að við séum eins og viljalaust verkfæri, fórnarlamb utanaðkomandi aðstæðna og ófullnægjandi evrópsks regluverks í þessu máli. Það var alltaf mögulegt að stemma þessa á að ósi. Það var alltaf mögulegt að setja viðbótarskilyrði. Það var alltaf mögulegt að breyta lögum á þann veg að skylda banka sem ætluðu sér jafnstórfellt strandhögg í öðrum löndum til þess að greiða meira í tryggingarsjóðinn og ganga betur úr skugga um að innstæður væru þar fyrir hendi til að bregðast við ef illa færi.

Byrðarnar eru miklar sem við þurfum að axla vegna þessa máls en þær eru ekki óyfirstíganlegar. Í því samhengi er rétt að minna á að þær eru mun minni en þær byrðar sem við höfum tekið við möglunarlaust vegna mistaka Seðlabanka Íslands í fyrirgreiðslu til bankanna í aðdraganda hrunsins. Þar vildi svo sérkennilega til að sá mikli snillingur, formaður bankastjórnar Seðlabankans, sem vissi öllum mönnum betur að bankarnir væru að fara í þrot og varaði við því allt árið 2008, var á fullu að lána þessum sömu bönkum peninga án nokkurra haldbærra trygginga. (Gripið fram í.) Formaður bankastjórnarinnar jós peningum úr ríkissjóði til þess að halda þessum bönkum gangandi sem hann segist svo eftir á að hyggja alltaf hafa vitað að væru að fara í þrot.

Margt bendir til þess að ef við göngum ekki þá leið að samþykkja þessa samninga verði kostnaður okkar af því miklu meiri. Við vitum að það mun verða erfitt fyrir okkur að ganga þá leið og ekkert er komið fram um að við ráðum ekki við það verkefni að standa við þær skuldbindingar sem hér um ræðir. (Gripið fram í.) Nokkuð hefur verið rætt um afleiðingar aðgerðaleysis í þessu efni. Því hefur verið haldið fram að erlendar þjóðir muni sækja þetta mál fyrir íslenskum dómstólum, eins og málinu geti lokið með þeim hætti. Hér er um mikið hættuspil að ræða, að stilla málum upp með svo einfeldningslegum hætti, því auðvitað er um að ræða milliríkjadeilu sem aldrei verður leyst einhliða af öðrum aðilanum. Þess vegna var ákveðið að leita samninga í upphafi og þess vegna var komist að því í tíð þessarar ríkisstjórnar að lengra yrði ekki haldið.

Virðulegi forseti. Rétt er að rifja upp að jafnvel þótt óvissa kunni að vera um hina lagalegu skyldu okkar til að standa skil á lágmarksinnstæðutryggingunni er alveg ljóst að við höfum með Brussel-viðmiðunum viðurkennt þá þjóðréttarlegu skuldbindingu að hér skuli innstæðutryggingarkerfið virka með sama hætti og annars staðar í Evrópu og að það sé skuldbinding að EES-rétti. Sú þjóðréttarlega skuldbinding liggur því fyrir. Ef við kjósum að ganga ekki frá samningum við nágrannaríki okkar um þá skuldbindingu og hvernig henni verði fyrirkomið vitum við af reynslu að þrýstingur mun aukast mjög á okkur á alþjóðavettvangi. Það vitum við af reynslunni frá því í fyrrahaust. Við sáum þá hvernig Bretar og Hollendingar beittu afli sínu innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við vitum líka að þeir ítrekuðu hótanir í þá veru síðla vetrar og við vitum að þeir hafa áfram verið til vandræða, Hollendingar og Bretar, í frekari afgreiðslu þessa máls á síðari helmingi ársins. Við vitum líka að fyrirgreiðsla Norðurlandanna er háð því að frá þessu máli verði gengið. Allt liggur þetta ljóst fyrir. Þar nægir að nefna sameiginlegt bréf Norðurlandanna um skilmála fyrir lánveitingum til Íslands og ef menn vilja nú reyna að afneita staðreyndum er hægt að vísa enn frekar til þess bréfs sem danska fjármálaráðuneytið sendi fjármálanefnd danska þingsins 23. nóvember sl. þar sem fram kom að lánafyrirgreiðslan við íslenska ríkið væri háð því að gengið verði frá samningum um lausn Icesave-málsins.

Með öðrum orðum, sú lánafyrirgreiðsla sem við höfum þegar fengið er fengin í trausti þess að frá samningum um Icesave verði gengið og ef þeir samningar verða felldir nú er lánafyrirgreiðsla okkar sem þegar er veitt öll í uppnámi, við öll Norðurlöndin og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og frekari lánafyrirgreiðsla ekki í boði. Það er líka ljóst að lánshæfismat íslenska ríkisins er í mikilli óvissu ef ekki verður gengið frá þessu máli. Þess vegna er ljóst að kostnaðurinn af því að ljúka þessu máli ekki nú yrði augljóslega mikill fyrir íslenskt efnahagslíf ef í kjölfarið kæmi lækkun lánshæfismats ríkisins og lánshæfismats þeirra fyrirtækja sem við reiðum framtíð okkar á, orkufyrirtækjanna og Íbúðalánasjóðs, sem öll eru með lánshæfismat sem tengt er íslenska ríkinu.

Virðulegi forseti. Það er heldur ekki hægt að láta eins og það sé hægt að skella landinu í lás og engar fleiri afleiðingar verði af því að synja þessum samningi staðfestingar. Við vitum að það er óvissa um afdrif mála vegna þeirrar mismunar sem við gripum vissulega til með setningu neyðarlaganna þar sem við á þeim tíma tryggðum að fullu innstæður innstæðueigenda í íslenskum bönkum á Íslandi en gerðum ekki það sama í útibúum sömu banka í útlöndum. Það er enginn eðlismunur á innstæðueiganda í útibúi Landsbankans í Newcastle eða á Egilsstöðum, þeir eru báðir innstæðueigendur hjá sama fjármálafyrirtæki. Við ákváðum að mismuna þarna og það er alveg ljóst að veruleg hætta er á að sú mismunun verði ekki talin standast ef við virðum ekki lágmarksinnstæðutrygginguna.

Virðulegi forseti. Það er líka rétt að minna á að óháð þessu tiltekna ágreiningsefni um hvort okkur beri við algjört efnahags- og bankahrun að standa skil á innstæðutryggingarkerfinu — ég hef nú þegar rakið að auðvitað var okkur ávallt í lófa lagið að tryggja ríkari inngreiðslu lífeyrissjóðanna þannig að meira væri í honum þegar til áfalla kæmi — er margt sem bendir til þess að vegna þess að hér er um skuldbindingu að EES-rétti að ræða sé bótaskylda á okkur vegna ófullnægjandi innleiðingar ef svo færi að innstæðueigandi gæti ekki fengið kröfu sinni framgengt vegna þess að tryggingarsjóðurinn ætti ekki tiltækt fé. Það er alveg ljóst að ríki hafa verið dæmd til bótaskyldu vegna ófullnægjandi innleiðingar á tilskipunum Evrópusambandsréttar, jafnt innan Evrópusambandsréttarkerfisins og innan EES-réttar. Það er grundvallarregla Evrópuréttar að ef ríki innleiða ekki tilskipanir sem veita almenningi rétt með þeim hætti að fólk geti síðar leitað réttar síns eru ríki almennt séð skaðabótaskyld fyrir ófullnægjandi innleiðingu. Því er alls ekki hægt að segja að þetta mál snúist um einfalda útfærslu á einu afmörkuðu lögfræðilegu ágreiningsefni sem verði leyst úr fyrir íslenskum dómstólum. Þvert á móti er hér um að ræða flókna og fjölþætta milliríkjadeilu sem verður að semja um og það höfum við gert.

Ég vil þess vegna sérstaklega minna á að í álitum beggja bresku lögmannsstofanna er mikill samhljómur um eitt atriði, þ.e. hina miklu óvissu sem felst í því að samþykkja ekki þennan samning, vegna þess að þá eru allir þessir lögfræðilegu þættir í sjálfu sér opnir. Í dag vitum við þó nokkurn veginn hverjar staðreyndir þessa máls verða. Við höfum góðar vonir um að endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans muni duga með brúklegum hætti fyrir kröfunni, við vitum hver umgjörð málsins er að öðru leyti og við fáum frið frá greiðslum á fyrstu sjö árunum. Hitt, að tefla málinu í fullkomna óvissu, hætta á að þurfa að greiða kröfuna alla strax án nokkurrar lánafyrirgreiðslu eða það sem enn verra væri að gera þar með jafnvel líklegra að neyðarlögin stæðust ekki fyrir dómi og þurfa að horfa (Gripið fram í.) á þau ósköp sem fælust í því að neyðarlögin stæðust ekki, það er gríðarlegt áhættuefni líka. Þess vegna er ánægjulegt að sjá þennan samhljóm í álitum beggja lögmannsstofanna. Ég held að engar líkur séu á því (Gripið fram í.) að við sleppum mikið betur en með þeim samningi sem við höfum nú gert og liggur hér til staðfestingar með þeirri umgjörð sem við höfum búið honum í sumar og svo aftur með viðbótarsamningunum í haust. Þvert á móti held ég að þegar horft er á þá gríðarlegu áhættu sem við tökum með því að synja þessum samningi núna séu allar líkur á því að tjón okkar gæti orðið mun meira.

Ég held að okkur væri hollt að minnast hinna ágætu orða hv. þm. Bjarna Benediktssonar þegar hann mælti fyrir því af hverju við ættum að fara samningaleiðina fyrir rösku ári síðan. Hann rakti einmitt mikilvægi þess að ljúka þessu máli með samningi þar sem við takmörkuðum áhættu okkar og þar sem það væri kannski ekki verjandi eða áhættunnar virði að hætta á að tapa málinu að fullu og öllu fyrir dómi. Það er sannarlega ljóst að sú hætta er enn fyrir hendi.

Virðulegi forseti. Ég held því að nú sé komið að leiðarlokum í þessu máli. Við höfum gert það sem við getum. Við höfum leitað bestu samninga sem hægt er að ná. Við höfum tekið langan tíma í sumar og haust í að bæta úr þeim ágöllum sem komu fram á upphaflegum samningum í ljósi athugasemda sem komu fram í hinni þingræðislegu meðferð. Við höfum í kjölfarið náð viðaukasamningum sem gera réttarstöðu Íslands fullkomlega ásættanlega. Áhættan af því að samþykkja ekki þennan samning er miklu, miklu meiri. Tjónið af því að samþykkja ekki þennan samning getur orðið gríðarlegt. (Gripið fram í.) Það sem er sláandi er að í hópi (Gripið fram í.) stjórnarandstöðunnar er enginn einhugur um hvað eigi að taka við. (Gripið fram í: Órökstutt.) Þvert á móti eru þar a.m.k. þrjú ólík sjónarmið. Eitt sem hv. þingmenn Framsóknarflokksins virðast standa fyrir um að það eigi að láta skeika að sköpuðu en svo virðist hins vegar, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson rakti áðan í sínu máli, sem viðhorf hans byggist á því að við eigum að viðurkenna skuldbindinguna en leita einhverra annarra samninga. Virðulegi forseti. Ég tel að nú sé tími til að láta hér nótt sem nemur og að staðfesta þá samninga sem hér liggja fyrir.