138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara til að árétta það við hæstv. félagsmálaráðherra þá verður látið reyna á neyðarlögin, alveg sama hvort við samþykkjum þessa Icesave-samninga eða ekki.

Í sumar kom mjög hörð gagnrýni frá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra og formanni Samfylkingarinnar, um að þau mistök sem við gerðum í þessari samningalotu hefðu verið að við hefðum ekki látið Evrópusambandið vera við borðið með okkur til þess að tryggja hin umsömdu viðmið, hin svokölluðu Brussel-viðmið. Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hver hans skoðun sé á því, vegna þess að hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á það í ræðu sinni að við værum að semja undir mjög miklum þrýstingi við stórar þjóðir sem misbeittu aðstöðu sinni í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, á Norðurlöndunum og hvað eina. Getur hæstv. félagsmálaráðherra ekki tekið undir skoðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að skynsamlegra hefði verið að hafa Evrópusambandið með í samningagerðinni?