138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið vona ég að lögmenn andstæðinga íslenska ríkisins og annarra hafi ekki heyrt ummæli hæstv. félagsmálaráðherra áðan um neyðarlögin en það er annað mál.

Eins og komið hefur fram hefur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, sent utanríkismálanefnd bréf. Það má í rauninni líkja þessu við sálm þar sem samviska hennar talaði loksins til þingmanna og sér í lagi til þingmanna Samfylkingarinnar. Hún segir um Brussel-viðmiðin:

„Þannig mörkuðu þau nýtt upphaf auk þess sem tíminn hefur unnið með okkur því í október/nóvember voru öll stjórnvöld í Evrópu eins og þaninn strengur af ótta við óróann á fjármálamörkuðum og áhlaup á banka hver hjá sér. Sú staða hefur róast.“

Er þingmaðurinn sammála þessu mati Ingibjargar Sólrúnar? Er hann líka sammála því mati hennar að hún telur ótvírætt að Brussel-viðmiðin hafi verið svikin í samningaviðræðum milli Íslendinga, Breta og Hollendinga?