138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:06]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að hv. þingmaður hafi nokkuð til síns máls þegar hann fjallar um rekstrarformið, og auðvitað voru það ekki bara fjármálastofnanir á Íslandi sem lentu í vanda heldur fjármálastofnanir um heim allan. En maður verður þó að spyrja 15 mánuðum eftir hrun: Hversu lengi eigum við að bíða eftir niðurstöðu sem stjórnarandstaðan getur sætt sig við? Við ætlum að ábyrgjast lágmarksskuldbindingarnar. Þær eru á umsömdum vöxtum sem ef þeir væru lægri væri í tilfelli atvinnulífsins brot á samkeppnisreglum. Við höfum fengið sjö ára greiðslufrest á þessum okkar miklu skuldbindingum en líka þessum okkar miklu ábyrgðum sem við getum aldrei hlaupist á brott frá. Það er dálítið sérkennilegt að heyra þingmenn stjórnarandstöðunnar og einkum Sjálfstæðisflokksins tala hér um samstöðu vegna þess að vissulega náðum við næstum því samstöðu í meðferð málsins í sumar en þegar til stykkisins kom og þegar búið var að ná saman um fyrirvarana, hljóp Sjálfstæðisflokkurinn frá ábyrgð sinni, þá sagði Sjálfstæðisflokkurinn skilið við ríkisstjórnina, skilið við það verkefni sem hann hafði verið að vinna að, að ég held af heilindum, að því að reyna að leysa frá því að hann var við stjórnvölinn, vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn bar mikla ábyrgð. Í því að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi ekki samþykkja afgreiðslu málsins í sumar, held ég að séu fólgin býsna mikil mistök. Og að koma síðan nú og kalla eftir því, eftir að hafa sjálfir sagt skilið við leiðangurinn, að aðrir sýni samstöðu með þeim finnst mér, virðulegur forseti, vera býsna langt seilst og til býsna mikils ætlast.